FISK Seafood kaupir í Steinunni hf.

Félagið hefur gert út vertíðarbátinn Steinunni SH-167.
Félagið hefur gert út vertíðarbátinn Steinunni SH-167. Ljósmynd/Aðsend

Gengið hef­ur verið frá sam­komu­lagi um kaup FISK Sea­food ehf. á 60 pró­senta eign­ar­hlut í út­gerðarfé­lag­inu Stein­unni hf. í Ólafs­vík. Fimm bræður og fjöl­skyld­ur þeirra hafa rekið fé­lagið í um hálfa öld og hef­ur fé­lagið gert út vertíðarbát­inn Stein­unni SH-167. Þetta seg­ir í til­kynn­ingu um kaup­in.

Tveir bræðranna, Brynj­ar og Ægir Krist­munds­syn­ir, munu eft­ir kaup­in eiga sitt hvorn 20 pró­senta eign­ar­hlut ásamt fjöl­skyld­um sín­um auk þess sem þeir halda áfram sem skip­stjóri og vél­stjóri Stein­unn­ar SH-167, seg­ir í til­kynn­ing­unni. Þá munu aðrir eig­end­ur selja hluti sína í fé­lag­inu.

Mark­mið FISK Sea­food með kaup­un­um eru sögð vera að styrkja um­svif sín í út­gerð vertíðarbáta. Auk kaup­anna á Stein­unni hf. er fé­lagið sagt hafa stigið önn­ur skref í þá átt und­an­farið. Stjórn­end­ur FISK Sea­food segja að það sé þeirra skoðun að Snæ­fellsnesið sé í raun eitt at­vinnusvæði og „búi yfir mikl­um tæki­fær­um til að styrkja stöðu sína á sviði fjöl­breytts sjáv­ar­út­vegs á kom­andi árum.“

Þá seg­ir að eft­ir yfir 50 ára sam­fellda sjó­sókn hafi eig­end­um Stein­unn­ar hf. þótt tími til kom­inn að „stokka upp spil­in, sækja sér liðsstyrk og bæta vindi í segl­in.“

Í til­kynn­ing­unni er haft eft­ir Brynj­ari og Ægi: 

„Við erum þakk­lát­ir fyr­ir það að þessi langi rekst­ur fjöl­skyld­unn­ar hafi nú fengið tæki­færi til kraft­mik­ill­ar end­ur­nýj­un­ar. Inn­koma Friðbjörns Ásbjörns­son­ar með mikla þekk­ingu á aðstæðum út­gerðar­inn­ar á Snæ­fellsnesi og hið sterka bak­land FISK Sea­food gef­ur góð fyr­ir­heit um fram­haldið. Sam­starf okk­ar er ekki ein­göngu grund­vallað á metnaðarfull­um mark­miðum held­ur einnig langri vináttu héðan af nes­inu og gagn­kvæmu trausti. Það skipt­ir miklu máli.“

Fram kem­ur í til­kynn­ing­unni að Stein­unn SH 167 er 153ja rúm­lesta drag­nót­ar­bát­ur, smíðaður árið 1971 hjá Stál­vík í Garðabæ. Fisk­veiðikvóti fé­lags­ins er alls ríf­lega ell­efu hundruð tonn í fimmtán teg­und­um, m.a. um 850 tonn í þorski auk ýsu, ufsa, skar­kola o.fl. FISK Sea­food greiðir ríf­lega 2,5 millj­arða króna fyr­ir eign­ar­hlut sinn í Stein­unni hf. og eru viðskipt­in gerð með fyr­ir­vara um samþykki Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins.

mbl.is