Stéttarfélög sjómanna slitu í gær viðræðum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá SFS.
Kjarasamningar sjómanna hafa verið lausir um nokkurt skeið og á umliðnum mánuðum hafa viðræður átt sér stað á milli SFS og stéttarfélaga sjómanna um nýja samninga.
„Nokkur munur er á kröfum einstakra stéttarfélaga sjómanna. SFS áætla hins vegar að ef fallist yrði á kröfurnar hlypi kostnaður vegna þeirra á milljörðum króna ár hvert. Launakostnaður er hár í fiskveiðum, en hæst fer hann í um 44% af heildartekjum. Hlutfallið er sannanlega nokkuð misjafnt á milli útgerðarflokka,“ segir í tilkynningunni.
„Ef gengið yrði að kröfum stéttarfélaganna, má ljóst vera að mörg fyrirtæki gætu ekki staðið undir þeim og einstakir útgerðarflokkar gætu jafnvel lagst af. Slíkt þjónar hvorki hagsmunum sjómanna í heild né samfélagsins.“