Framboð Áslaugar kostaði 8,7 milljónir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir dóms­málaráðherra eyddi alls 8,7 millj­ón­um króna í próf­kjörs­bar­áttu sína fyrr á ár­inu.

Þar atti hún kappi við Guðlaug Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra um odd­vita­sæti Sjálf­stæðis­flokks­ins í Reykja­vík en laut í lægra haldi og hafnaði í öðru sæti.

Upp­lýs­ing­um um fram­boð Guðlaugs Þórs hef­ur ekki verið skilað.

Alls nam kostnaður við fram­boð Áslaug­ar 8.728.076 krón­um, eins og sjá má á upp­gjöri fé­lags utan um fram­boðið, sem nálg­ast má á vef Rík­is­end­ur­skoðunar. Af þeirri fjár­hæð var 3.7 millj­ón­um eytt í starfs­manna­kostnað, 2,6 millj­ón­um í aug­lýs­ing­ar og 1,6 millj­ón­um í rekst­ur kosn­inga­skrif­stofu.

Rekstr­ar­tekj­ur fram­boðsfé­lags­ins námu alls 8.734.00 krón­um og þar af voru fram­lög ein­stak­linga um 5,9 millj­ón­ir en fram­lög lögaðila um 2,8 millj­ón­ir.

Sjálf­stæðis­menn stór­tæk­ast­ir

Fram­boð Hild­ar Sverr­is­dótt­ur í próf­kjöri sjálf­stæðismanna í Reykja­vík kostaði alls 3.418.728 krón­ur. Þar af var 2,8 millj­ón­um varið í aug­lýs­ing­ar en 582 þúsund krón­um í ann­an kostnað. Fram­lög ein­stak­linga til fram­boðs Hild­ar námu alls 1.3 millj­ón­um en fram­lög lögaðila námu rétt rúm­um 2 millj­ón­um. Hild­ur hafnaði í fjórða sæti próf­kjörs­ins.

Á vef Rík­is­end­ur­skoðunar má einnig finna upp­gjör fram­boðs Ásmund­ar Friðriks­son­ar, sem hafnaði í þriðja sæti í próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokks­ins í Suður­kjör­dæmi. Alls nam kostnaður við það fram­boð 3,2 millj­ón­um króna, þar af féllu til 1.4 millj­ón­ir vegna kosn­inga­skrif­stofu, 537 þúsund vegna aug­lýs­inga, 922 þúsund vegna fund­ar- og ferðakostnaðar og 313 þúsund vegna ann­ars kostnaðar.

Fram­lög til fram­boðs Ásmund­ar námu 3,2 millj­ón­um króna, þar af 2,1 millj­ón frá lögaðilum og 1 millj­ón frá ein­stak­ling­um. Eig­in fram­lög Ásmund­ar sjálfs námu 8.027 krón­um.

Þónokkuð marg­ir fram­bjóðend­ur úr röðum Sjálf­stæðis­flokks, Sam­fylk­ing­ar, Vinstri grænna, Fram­sókn­ar­flokks og Pírata hafa skilað til Rík­is­end­ur­skoðunar yf­ir­lýs­ingu þess efn­is að fram­boð þeirra hafi kostað minna en 550 þúsund og því er frek­ara upp­gjörs ekki þörf.

Sem dæmi má nefna hef­ur fram­boð Sig­urðar Inga Jó­hanns­son­ar, sam­göngu- og sveita­stjórn­aráherra, ekki kostað meira en 550 þúsund krón­ur.

mbl.is