Skipstjóra var ekki kunnugt um veiðibannið

Vestmananey VE var staðin að ólöglegum veiðum við Glettinganesgrunn.
Vestmananey VE var staðin að ólöglegum veiðum við Glettinganesgrunn. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Það var Vest­mana­ney VE-054, skut­tog­ari Bergs-Hug­inn ehf. dótt­ur­fé­lags Síld­ar­vinnsl­unn­ar, sem  staðið var að meint­um ólög­leg­um veiðum á lokuðu svæði í gær. Skip­stjór­an­um var ekki kunn­ugt um að svæðinu hafði verið lokað. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu á Face­book-síðu Síld­ar­vinnsl­unn­ar.

Varðstjór­ar í stjórn­stöð Land­helg­is­gæsl­unn­ar urðu um há­deg­is­bil í gær var­ir við að skipið væri að veiðum á Glett­inga­nes­grunni við Seyðis­fjarðar­djúp þar sem all­ar veiðar með fisk­botn­vörpu hafa verið bannaðar frá 1. júlí til ára­móta.

Í til­kynn­ingu Síld­ar­vinnsl­unn­ar seg­ir að Vest­manna­ey hafi verið á veiðum „á Glett­inga­nes­grunni í svo­kölluðum Skáp. Við skoðun kom í ljós að tíma­bundið bann við veiðum með botn­vörpu hafði verið sett á um­rætt svæði með reglu­gerð í lok júní sl. en skip­stjóra var ekki kunn­ugt um reglu­gerðina eða að svæðinu hefði verið lokað.“

Þá var skip­inu snúið við og haldið til Nes­kaupstaðar þar sem landað var úr því. „Virðist hafa far­ist fyr­ir hjá þar til bær­um yf­ir­völd­um að birta reglu­gerð um tíma­bundið bann á sam­ráðsgátt eins og vænta mátti. Skýrslu­töku vegna máls­ins er lokið og ráðgert er að Vest­manna­ey haldi á ný til veiða síðar í dag,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Vís­ar Síld­ar­vinnsl­an til þess að enn hef­ur at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið ekki birt niður­stöðu úr sam­ráðsferli í sam­ráðsgátt stjórn­valda vegna reglu­gerðar um tíma­bundið bann við veiðum með fiski­botn­vörpu út af Glett­inga­nesi, þrátt fyr­ir að niður­stöður hafa verið í vinnslu frá 13. júní. Auk þess hef­ur ekki verið birt til­kynn­ing á vef Fiski­stofu.

Rétt er þó að vekja at­hygli á að reglu­gerðin var birt á reglu­gerðar­vef stjórn­valda 23. júní.

mbl.is