Síldarvinnslan hlaut 19,5 milljónir úr Orkusjóði

Börkur NK landtengdur í Norðfjarðarhöfn.
Börkur NK landtengdur í Norðfjarðarhöfn. Ljósmynd/Síldarvinnslan

Síld­ar­vinnsl­an fékk ný­verið út­hlutaðan 19,5 millj­ón króna styrk úr Orku­sjóði vegna verk­efn­is­ins „land­teng­ing upp­sjáv­ar­skipa“. Búnaður til land­teng­inga var tek­inn í notk­un í Norðfjarðar­höfn í byrj­un sept­em­ber.

Fram kem­ur í færslu á vef Síld­ar­vinnsl­unn­ar að búnaður­inn sé í eigu út­gerðar­inn­ar, en hún hef­ur kostað þróun hans. Þá er áætlað að hægt sé að minnka ol­íu­notk­un upp­sjáv­ar­skipa um 300.000 lítra á ári þegar öll upp­sjáv­ar­skip sem landa í Nes­kaupstað verða kom­in með búnað til að tengj­ast raf­magni er þau eru við bryggju.

„Í land­teng­ing­unni felst að skip, sem er að landa afla, fær raf­orku úr landi til að kæla afl­ann, dæla hon­um á land og sinna ann­arri raf­orku­notk­un um borð í stað þess að fram­leiða orku með vél­búnaði sem nýt­ir olíu sem orku­gjafa,“ seg­ir í færsl­unni. Jafn­framt er vak­in at­hygli á að þetta sé í fyrsta sinn sem fiski­skip eru land­tengd með svo afl­mik­illi teng­ingu.

Orsku­sjóður út­hlutaði alls 470 millj­ón­um til 100 verk­efna er snúa að orku­skipt­um.

mbl.is