Slysavarnaskóli sjómanna var stofnaður 1985 og Hilmar Snorrason hefur verið skólastjóri hans í rúm 30 ár. „Ég var skipstjóri á Öskju, skipi Skipaútgerðar ríkisins, hafði tekið þar til hendi í öryggisfræðslu, var beðinn að halda erindi á ráðstefnu um öryggismál á vegum samgönguráðuneytisins 1990 og í kjölfarið buðu forráðamenn Slysavarnafélagsins mér að taka við skólanum,“ segir hann um byrjunina. „Ég tók við 1. september 1991 og þá vissi ég ekki að Skipaútgerðin var sökkvandi skip en hún var lögð niður um næstu áramót.“
Fyrsta árið var skólinn í húsnæði Slysavarnafélagsins á Grandagarði. Varðskipið Þór var keypt fyrir 1.000 krónur 1986 og þá færðist kennslan um borð í hann. Ríkisstjórnin gaf Slysavarnafélaginu Akraborg 1998, ferjunni var breytt í skóla og fékk nafnið Sæbjörg. Til stendur að færa skipið og þar með skólann úr Austurhöfn að Bótarbryggju á Grandagarði í haust. Stjórnendur hafa leitt hugann að nýju skipi og hefur helst verið staldrað við Herjólf, en framhaldið er óráðið og í höndum stjórnvalda.
Mikilvæg gjöf
„Það var gríðarleg lyftistöng fyrir skólann að komast í rúmgott húsnæði, að fara úr einni kennslustofu í þrjár fullbúnar stofur þegar fram liðu stundir auk stórs svæðis fyrir allan búnað, sem hefur aukist reglulega,“ segir Hilmar. Í því sambandi bendir hann á að slitastjórn styrktarsjóðs nemenda Stýrimannaskólans í Reykjavík hafi á síðasta ári ákveðið að gefa skólanum björgunarfarasiglingaherma. „Þeir hafa nýlega verið teknir í notkun og nýtast sjómönnum afar vel við þjálfun í að sigla björgunarförum við erfiðar aðstæður.“
Námskeiðin hafa verið allt frá hálfum degi upp í fimm daga með áherslu á forvarnir. „Við höfum verið með meira en 30 mismunandi námskeiðsgerðir frá seinni hluta ágúst fram í fyrstu viku júlí,“ segir Hilmar en tíu manns starfa við skólann.
Þorvaldur Axelsson var fyrsti skólastjórinn, Þórir Gunnarsson tók við stjórninni 1988 og síðan Hilmar 1991. Hann bendir á að þegar skólinn var stofnaður hafi alþjóðlegar kröfur um þjálfun sjómanna ekki verið komnar fram. Starfsemin hafi því verið komin upp á velvild útgerða og áhuga sjómanna. „Kvennadeildir Slysavarnafélags Íslands tóku strax ástfóstri við skólann og hafa alla tíð gert og voru það afl sem var hvað sterkast í því að fá sjómenn til að koma á námskeiðin áður en það varð að skyldu samkvæmt lögum.“ Þar vísar hann í lög, sem samþykkt voru um skólann á Alþingi 1991 með aðlögunarfresti, sem var reyndar framlengdur í nokkur ár.
Miklar breytingar hafa orðið á öllu sem tengist skólanum frá því hann var stofnaður. Hilmar nefnir meðal annars húsnæðismál og aukna tækni en viðhorfsbreyting sjómanna skipti mestu máli. Í byrjun hafi þeir ekki sýnt málinu mikinn skilning og áhuga en nú sé öldin önnur. „Viðhorf sjómanna er stærsta breytingin, hvernig þeir hafa komið fræðslunni, sem við höfum verið að miðla, í góða virkni um borð í skipunum hjá sér. Þar með hafa þeir dregið mikið úr slysum, ekki síst banaslysum. Ég átti mér langþráðan draum um að sjá banaslysalaust ár á sjó og það hafðist ekki fyrr en 2008 en síðan hafa fleiri slík ár fylgt í kjölfarið.“ Hann leggur jafnframt áherslu á að öðrum alvarlegum slysum um borð hafi fækkað til muna. „Nú er draumurinn orðinn slysalaust ár á sjó.“
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.