Ný gögn sem Stundin birtir vegna Samherjamálsins gefa til kynna að stjórnendur fyrirtækisins hafi vitað af mútugreiðslum til háttsettra og vel tengdra Namibíumanna til að verða því úti um verðmætan fiskveiðikvóta í Namibíu.
„Talað er opinskátt um að greiða mútur og tölvupóstar sem eru undir í rannsókn íslenskra og namibískra yfirvalda sýna hvernig undirmenn Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra og þá aðaleiganda útgerðarrisans, héldu honum stöðugt upplýstum um þróun mála í Namibíu,” segir í umfjöllun Stundarinnar.
Fram kemur í gögnunum að Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi stjórnarmaður í Samherja og umsjónarmaður útgerðar fyrirtækisins í Afríku, hafi skrifað uppljóstraranum Jóhannesi Stefánssyni að á einhverju stigi kunni „að skipta máli að múta einhverjum leiðtoga þessara manna”.
Þessi skilaboð eru frá árinu 2011, skömmu áður en Samherji haslaði sér völl í Namibíu undir merkjum Kötlu Seafood.
Þegar Namibíumálið var afhjúpað sagði Jóhannes að Aðalsteinn hefði sagt við sig að hann ætti að borga sjávarútvegsráðherra fengi hann tækifæri til þess.
Stjórnendur Samherja hafa hingað til haldið því fram að þeir hafi ekki vitað af greiðslum Jóhannesar.