Bjóst í besta falli við að verða varaþingmaður

„Vonandi get ég verið sú rödd á Alþingi sem talar …
„Vonandi get ég verið sú rödd á Alþingi sem talar máli stúdenta,“ segir Lenya. Ljósmynd/Píratar

Lenya Rún Taha Karim tók þátt í sín­um fyrstu Alþing­is­kosn­ing­um í gær, enda ein­ung­is 21 árs göm­ul, og gat þá kosið sjálfa sig, þar sem hún var í fram­boði fyr­ir Pírata. Hún komst inn á þing og er yngst til að ná kjöri á Alþingi frá upp­hafi. Þá er hún einnig fyrsti þingmaður­inn sem tek­ur sæti Alþingi og á ræt­ur að rekja til Kúr­d­ist­an.

„Ég held að þetta sýni vilja þjóðar­inn­ar um að fá ein­hverja unga rödd inn á Alþingi,“ seg­ir Lenya sem brenn­ur m.a. fyr­ir mál­efn­um ungs fólks. Hún er 22 dög­um yngri en Jó­hanna María Sig­munds­dótt­ir var þegar hún tók sæti fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn árið 2013.

Lenya seg­ir að hún hafi ekki gert ráð fyr­ir því að kom­ast inn á þing, en hún var í þriðja sæti á lista Pírata í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður. 

„Ég var að bú­ast við því að verða í besta falli fyrsti varaþingmaður en var alls ekki að bú­ast við þess­um niður­stöðum,“ seg­ir Lenya. Hún setti sím­ann sinn á flugstill­ingu í nótt, þegar at­kvæði voru enn í taln­ingu. Svo vaknaði hún við haug af ham­ingjuósk­um því jú, hún hafði kom­ist inn í jöfn­un­ar­sæti.

„Ég er ekki enn búin að meðtaka það sem er búið að ger­ast,“ seg­ir Lenya. 

Af­glæpa­væðing neyslu­skammta for­gangs­mál

Hver verða þín fyrstu skref á Alþingi? 

„Ég held að það sé að leggja fram frum­varp um af­glæpa­væðingu neyslu­skammta. Við erum með tvö full­unn­in frum­vörp til­bú­in og við erum búin að taka umræðuna á Alþingi nokkr­um sinn­um þannig að það ætti ekki að vera mikið mál að koma þessu í gegn,“ seg­ir Lenya sem horf­ir einnig til mál­efna stúd­enta, þar nefn­ir hún lána­sjóðinn sem helsta viðfangs­efnið.

„Ég vil breyta lána­sjóðskerf­inu í styrkja­kerfi, hækka frí­tekju­markið og grunn­fram­færslu fram­færslu­lána.“

Lenya sat í Stúd­entaráði Há­skóla Íslands á starfs­ár­inu sem lauk í vor.

„Þegar ég var í Stúd­entaráði upp­lifði ég sterkt að það væri ekki hlustað á okk­ur enda er erfitt að heyra ákall unga fólks­ins þegar maður er 45 eða 50 ára. Von­andi get ég verið sú rödd á Alþingi sem tal­ar máli stúd­enta.“

Opin fyr­ir sam­starfi við alla, líka ald­urs­for­set­ann

Tóm­as A. Tóm­as­son, þingmaður Flokks fólks­ins, er elsti þingmaður­inn sem tek­ur sæti á Alþingi í kjöl­far kosn­inga. Spurð hvort hún geti ým­indað sér að vinna með ald­urs­for­set­an­um seg­ir Lenya það vel mögu­legt. 

„Það þarf klár­lega sam­tal að eiga sér stað. Ég er mjög opin fyr­ir sam­starfi við alla inn á Alþingi, á meðan við náum góðum mál­um í gegn.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina