„Óendanlega sárt“ að missa Jón Steindór

„Það er gott að heyra að það er hljómgrunnur fyrir …
„Það er gott að heyra að það er hljómgrunnur fyrir frjálslyndi en skilaboðin voru þau að það eigi ekki endilega að breyta neitt miklu,“ segir Þorgerður Katrín. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Stjórn­ar­and­stöðuflokk­arn­ir virðast flest­ir hafa sig nokkuð hæga þenn­an fyrsta dag eft­ir Alþing­is­kosn­ing­ar og telja al­mennt að stjórn­ar­mynd­un­ar­bolt­inn sé hjá rík­is­stjórn­ar­flokk­un­um þrem­ur. Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, formaður Viðreisn­ar seg­ir eng­ar þreif­ing­ar í gangi. 

„Við erum bara ró­leg,“ seg­ir Þor­gerður í sam­tali við mbl.is. Viðreisn bætti við sig ein­um þing­manni á milli kosn­inga og seg­ist Þor­gerður ánægð með það þó hún hefði vit­an­lega viljað sjá betri niður­stöðu fyr­ir Viðreisn.

„Ég er þakk­lát fyr­ir það að við bætt­um við okk­ur. Það ánægju­lega er að við erum að styrkja okk­ur veru­lega á lands­byggðunum. Við fund­um fyr­ir mikl­um meðbyr. Við fund­um það að fólk var for­vitið og langaði að tala við okk­ur um okk­ar stefnu og sjá aðeins inn í framtíðina. Hvort sem var rætt um lofts­lags­mál, sjáv­ar­út­veg eða gjald­miðils­mál.“

Fagn­ar Sig­mari og Guðmundi

Einn af þing­mönn­um Viðreisn­ar, Jón Stein­dór Valdi­mars­son, féll út af þingi í kosn­ing­un­um en hann var í öðru sæti á lista flokks­ins í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður.

„Það er óend­an­lega sárt að missa Jón Stein­dór af þingi. Hann hef­ur verið einn öt­ul­asti maður­inn inni á þingi og komið í gegn mik­il­væg­um mál­um eins og samþykk­is­mál­inu og fleiri prinsipp­mál­um. Um leið fagna ég öfl­ug­um liðsauka í Sig­mari [Guðmunds­syni] og Guðmundi [Gunn­ars­syni],“ seg­ir Þor­gerður sem hefði viljað sjá hærra fylgi hjá Viðreisn.  

„Það er alla vega ljóst að Viðreisn stend­ur eft­ir sem hin frjáls­lynda miðja. Frjáls­lynda miðjan bætti við sig. Mér sýn­ist að vinstri blokk­in sé öll að lækka, það kem­ur á óvart miðað við þær kann­an­ir sem voru sett­ar fram. Þegar upp er staðið þá held­ur rík­is­stjórn­in þó að Vinstri græn hafi fallið mjög í fylgi. Ég vil bara óska Fram­sókn­ar­flokkn­um til ham­ingju með góðan sig­ur,“ seg­ir Þor­gerður og vís­ar til þess að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hafi bætt við sig sex þing­mönn­um á milli kosn­inga.

Skila­boðin sú að ekki eigi að breyta miklu

Ger­irðu ráð fyr­ir því að rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir muni tala sig sam­an án þess að þreifa fyr­ir sér ann­ars staðar?

„Við sem höf­um verið á þing­inu vit­um að það eru mörg mál mjög erfið á milli stjórn­ar­flokk­ana. Þegar þau koma inn í þingið er eig­in­lega búið að meitla allt í stein vegna þess að það þarf að semja um allt. Svo er sumt sem fer ekki í gegn, allt frá „minni frels­is­mál­um“ og svo grund­vall­ar­mál­um fyr­ir til­tekna flokka eins og Vinstri græn sem fá ekki í gegn sum mál þrátt fyr­ir að það hafi staðið í stjórn­arsátt­mál­an­um, til dæm­is hvað varðar Miðhá­lend­isþjóðgarð eða skarp­ari stefnu í lofts­lags­mál­um. Á móti fá Vinstri græn að ráða ríkj­um í heil­brigðismál­um og vinna eft­ir þeirra hug­sjón­um í heil­brigðismál­um sem mark­ast af sósí­al­isma,“ seg­ir Þor­gerður og bæt­ir við:

„Það er gott að heyra að það er hljóm­grunn­ur fyr­ir frjáls­lyndi en skila­boðin voru þau að það eigi ekki endi­lega að breyta neitt miklu.“  

Þing­flokk­ur Viðreisn­ar mun að öll­um lík­ind­um funda um stöðuna á morg­un.

mbl.is