Landhelgisgæslan tekur þátt í alþjóðlega nýsköpunarverkefninu AI-ARC, sem á að auka sjálfvirkni við eftirlit, löggæslu, leit og björgun á norðurslóðum með gagnasöfnun og gervigreind.
Þetta kemur fram á vef LHG.
„Ætlunin er að útbúa nýstárlegt, öflugt, skilvirkt og notendavænt kerfi sem aflar gagna um skipaumferð og sjótengda starfsemi. Því er ætlað að auðvelda greiningu á hvers kyns frávikum, auðvelda áhættugreiningu og leiða til samþættra upplýsinga um skipaumferð,“ segir í tilkynningunni.
Mun markmið verkefnisins meðal annars felast í því að búa til verkfæri til löggæslu- og öryggisstofnana sem auðvelda ákvarðanatöku og auka öryggi sjófarenda. Er LHG þá ætlað að greina siglingar og sjótengda starfsemi á norðurslóðum og leggja mat á kerfið sem felst í verkefninu.
Verkefnið er fjármagnað af Horizon2020, nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins, og mun standa í hálft þriðja ár.