Verkfall ekki enn verið rætt

Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasamband Íslands.
Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasamband Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru bara tvö orð, ekki neitt,“ segir Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands við mbl.is, inntur eftir því hvernig kjaraviðræðum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi miði áfram. Þann 1. desember næstkomandi munu samningar þeirra við SFS hafa staðið í lausir í tvö ár .

Spurður hversu lengi hann sjái fram á að hægt verði að halda áfram í núverandi ástandi, segir hann það óvíst. „Síðast vorum við samningslausir í sex ár þannig þetta er rétt að byrja,“ segir Valmundur háðslega. „Nei auðvitað gengur það ekki að við séum samningslausir í mörg ár. Það er óboðlegt,“ bætir hann síðan við.

Að sögn Valmundar skilaði fundurinn sem haldinn var í síðustu viku með sáttasemjara litlum sem engum árangri en lög kveða á um að samningsaðilar hittist áfram á tveggja vikna fresti. „Þar bara vorum við í spjalli og kaffisopa, ekkert annað.“

Telja kröfur útgerðarinnar ósanngjarnar

Segir hann að viðræðum hafi síðast verið slitið í ljósi þess að Sjómannasambandið taldi kröfur útgerðarinnar ósanngjarnar. Vísar hann þá helst til umræðna um lífeyrisréttindi sjómanna, en eins og stendur eru þeir eina atvinnugreinin með 12% iðgjald í lífeyrissjóð, sem er 3,5 prósentustigum minna en gildir á almennum vinnumarkaði, eða 15,5%.

„Við erum að fara fram á að fá þrjú og hálft prósent framlag í lífeyrissjóðinn eins og allir aðrir launþegar. Fyrir það eigum við að greiða með því að borga hærri tryggingar fyrir sjómenn. Við áttum að taka á okkur kostnað á móti þessu þremur og hálfa prósenti sem við erum bara ekki sátt við.“

Segir hann þá samningana sem sambandinu hefur standið til boða ávallt bjóða upp á sömu útkomuna fyrir sjómenn. „Við fengum eiginlega sama tilboðið tvisvar til baka. Það var öðruvísi sett upp en alltaf er það þannig að við borgum þetta allt sjálfir á endanum. Það eru sjómenn ekki sáttir við.“

Verkfall hefur lítið upp á sig

Spurður hvort verkfall sé í aðsigi telur Valmundur það ólíklegt enda hafi það lítið upp á sig. „Það er ekkert farið að ræða það. Verkfall hefur ósköp lítið að segja á botnfiskaflotanum. Það er alltaf hægt að ná í þennan fisk seinna. Það væri þá ekki nema það væri í kringum loðnuvertíð. Þjóðarbúið er bara þannig statt núna að ég held að við sjáum það í hendi okkar að verða stoppaðir af í því.“

Þing sjómannasambandsins er nú á næsta leiti og koma þá fulltrúar sjómanna alls staðar að af landinu. Verður þá tekin ákvörðun um næstu skref, að sögn Valmundar, ef ekki hefur tekist að semja fyrir þann tíma sem hann telur verulega ólíklegt.

„Verkefnið fer ekkert frá okkur. Það er enn þá til staðar. Það er okkar og útgerðarinnar líka að klára þetta. Hvernig sem við förum að því, það er svo aftur annað mál,“ segir hann að endingu.

mbl.is