Verkfall ekki enn verið rætt

Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasamband Íslands.
Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasamband Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru bara tvö orð, ekki neitt,“ seg­ir Val­mund­ur Val­munds­son formaður Sjó­manna­sam­bands Íslands við mbl.is, innt­ur eft­ir því hvernig kjaraviðræðum við Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi miði áfram. Þann 1. des­em­ber næst­kom­andi munu samn­ing­ar þeirra við SFS hafa staðið í laus­ir í tvö ár .

Spurður hversu lengi hann sjái fram á að hægt verði að halda áfram í nú­ver­andi ástandi, seg­ir hann það óvíst. „Síðast vor­um við samn­ings­laus­ir í sex ár þannig þetta er rétt að byrja,“ seg­ir Val­mund­ur háðslega. „Nei auðvitað geng­ur það ekki að við séum samn­ings­laus­ir í mörg ár. Það er óboðlegt,“ bæt­ir hann síðan við.

Að sögn Val­mund­ar skilaði fund­ur­inn sem hald­inn var í síðustu viku með sátta­semj­ara litl­um sem eng­um ár­angri en lög kveða á um að samn­ingsaðilar hitt­ist áfram á tveggja vikna fresti. „Þar bara vor­um við í spjalli og kaffi­sopa, ekk­ert annað.“

Telja kröf­ur út­gerðar­inn­ar ósann­gjarn­ar

Seg­ir hann að viðræðum hafi síðast verið slitið í ljósi þess að Sjó­manna­sam­bandið taldi kröf­ur út­gerðar­inn­ar ósann­gjarn­ar. Vís­ar hann þá helst til umræðna um líf­eyr­is­rétt­indi sjó­manna, en eins og stend­ur eru þeir eina at­vinnu­grein­in með 12% iðgjald í líf­eyr­is­sjóð, sem er 3,5 pró­sentu­stig­um minna en gild­ir á al­menn­um vinnu­markaði, eða 15,5%.

„Við erum að fara fram á að fá þrjú og hálft pró­sent fram­lag í líf­eyr­is­sjóðinn eins og all­ir aðrir launþegar. Fyr­ir það eig­um við að greiða með því að borga hærri trygg­ing­ar fyr­ir sjó­menn. Við átt­um að taka á okk­ur kostnað á móti þessu þrem­ur og hálfa pró­senti sem við erum bara ekki sátt við.“

Seg­ir hann þá samn­ing­ana sem sam­band­inu hef­ur standið til boða ávallt bjóða upp á sömu út­kom­una fyr­ir sjó­menn. „Við feng­um eig­in­lega sama til­boðið tvisvar til baka. Það var öðru­vísi sett upp en alltaf er það þannig að við borg­um þetta allt sjálf­ir á end­an­um. Það eru sjó­menn ekki sátt­ir við.“

Verk­fall hef­ur lítið upp á sig

Spurður hvort verk­fall sé í aðsigi tel­ur Val­mund­ur það ólík­legt enda hafi það lítið upp á sig. „Það er ekk­ert farið að ræða það. Verk­fall hef­ur ósköp lítið að segja á botn­fiska­flot­an­um. Það er alltaf hægt að ná í þenn­an fisk seinna. Það væri þá ekki nema það væri í kring­um loðnu­vertíð. Þjóðarbúið er bara þannig statt núna að ég held að við sjá­um það í hendi okk­ar að verða stoppaðir af í því.“

Þing sjó­manna­sam­bands­ins er nú á næsta leiti og koma þá full­trú­ar sjó­manna alls staðar að af land­inu. Verður þá tek­in ákvörðun um næstu skref, að sögn Val­mund­ar, ef ekki hef­ur tek­ist að semja fyr­ir þann tíma sem hann tel­ur veru­lega ólík­legt.

„Verk­efnið fer ekk­ert frá okk­ur. Það er enn þá til staðar. Það er okk­ar og út­gerðar­inn­ar líka að klára þetta. Hvernig sem við för­um að því, það er svo aft­ur annað mál,“ seg­ir hann að end­ingu.

mbl.is