Hagnaður Samherja nam tæpum 8 milljörðum

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson

Hagnaður Samherja ársins 2020 taldi 7,8 milljarða króna en rekstrartekjur samstæðunnar námu 46,5 milljörðum. Þá var ákvörðun tekin um að greiða ekki út arð vegna síðasta árs.

Frá þessu er greint í tilkynningu félagsins.

Í ársuppgjörinu, sem kynnt var á aðalfundi Samherja í gær, kom fram að eigið fé félagsins undir lok 2020 hafi numið 78 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfallið 72%, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Lykiltölur úr rekstri Samherja fyrir árið 2020.
Lykiltölur úr rekstri Samherja fyrir árið 2020. Ársreikningur/Samherji

Var þá stjórn félagsins endurkjörin en formaður stjórnar er Eiríkur S. Jóhannsson. Með honum í stjórn sitja þau Dagný Linda Kristjánsdóttir, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Kristján Vilhelmsson og Óskar Magnússon.

Stórar fjárfestingar á árinu

Stærstu fjárfestingar fyrirtækisins á árinu voru smíðar á nýja skipinu Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, sem ætlað er til uppsjávarveiða, og ný fiskvinnsla á Dalvík.

„Þessar fjárfestingar endurspegla vilja og metnað félagsins til uppbyggingar, þannig að starfsfólk vinni við bestu aðstæður og framleiði hágæða vörur fyrir kröfuharða markaði,“ segir í tilkynningunni.

Gott gengi þrátt fyrir faraldur

Kemur þá einnig fram að heimsfaraldurinn hafi reynst áskorun í rekstrinum, hafi þá ekki verið hægt að hleypa utanaðkomandi sérfræðingum inn í vinnsluhúsið á Dalvík mánuðum saman. Auk þess voru aðstæður við smíði nýja skipsins krefjandi vegna faraldursins.

„Þegar litið er til síðasta árs, má segja að reksturinn hafi verið hálfgerð rússíbanareið vegna áhrifa heimsfaraldursins. Vegna þessa reyndi verulega á samstöðu allra og útsjónarsemi. Okkur tókst að halda úti skipaflotanum, vinnslunum og annarri starfsemi, þannig að reksturinn hélst svo að segja óbreyttur. Þetta er afrek samstillts starfsfólks, leyfi ég mér að [fullyrða],“ er haft eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja í tilkynningunni.

mbl.is