Sterk nýliðun er lykilatriði í stofnstærð loðnunnar sem við sjáum nú, að sögn Birkis Bárðarsonar fiskifræðings hjá Hafrannsóknastofnun, en ungloðnumælingin úr síðasta leiðangri er sú þriðja hæsta sem Hafró hefur staðið fyrir. Mældist veiðistofninn þá yfir 1,8 milljón tonna.
Hafrannsóknastofnun kynnti í morgun ráðleggingar sínar varðandi veiðar á loðnu fyrir fiskveiðiárið 2021/22. Var þá kveðið á um allt að sjöfalt hærri ráðleggingu en fyrir síðustu vertíð, eða allt að 904 þúsund tonn samanborið við 127 þúsund tonn í fyrra.
Birkir kveðst ekki geta sagt til um hversu mikil verðmætasköpun mun felast í þessari ráðgjöf. Segir hann þó liggja skýrt fyrir að verðmætið sé gríðarlega mikið og hlaupi á mörgum milljörðum fyrir þjóðarbúið. Telur hann þó að þetta mikla framboð muni hafa áhrif á verðið.
Talið er að síðasta loðnuvertíð hafi skilað yfir 20 milljörðum í útflutningsverðmæti, að meðtöldu því verðmæti sem fékkst frá norskum veiðiskipum. Ef miðað er við sama verð gæti það þýtt tekjur upp á 140 milljarða.
Aðspurður kveðst Birkir ekki geta staðfest hvort varfærnar aflareglur frá 2015 hafi skilað þeirri uppskeru sem við sjáum í dag. Hins vegar segir hann athyglisvert að sjá að í þau skipti þar sem veiði hefur verið stöðvuð fylgir því oft sterk nýliðun.
„Sem betur fer eru ekki mörg tilfelli þar sem veiðar eru stoppaðar en sögulega hefur það gefið góða nýliðun í kjölfarið. Hvort að það er tilviljun vil ég ekki fullyrða en það er góður punktur.“
Spurður hvaða aðrar skýringar séu mögulegar á þessum breytingum í stofnstærðinni, segir hann að erfitt sé að segja nákvæmlega til um það.
„Það er í raun ekki hægt að fullyrða hvað það er sem veldur þessum breytingum í stofnstærð loðnunnar en það sem liggur beinast til er umhverfið og vistkerfið. Í því tilliti þá eru þættir eins og hitastig sjávar sem við vitum að hefur breyst og útbreiðsla hafíssins.“