Karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir ítrekuð brot gegn fyrrverandi eiginkonu sinni í formi kynferðisbrota, stórfelldra ærumeiðinga og stórfells brots í nánu sambandi.
Yfir átta mánaða tímabili sendi maðurinn ítrekað tölvupósta með kynferðislegum myndum af konunni á fjölda tölvupóstfanga, setti inn kynferðislega mynd af henni á vefsíðu og setti inn tengla á kynferðislegar myndir af konunni í athugasemdakerfi DV.
Þá skrifaði maðurinn smánandi færslur um konuna, meðal annars á síðuna Matartips á Facebook, en þar eru tugir þúsunda notenda. Maðurinn stofnaði auk þess Facebook-síðu þar sem hann birti kynferðislegar myndir af konunni. Auk myndanna birti maðurinn tvö kynferðisleg myndskeið af konunni á vefsíðu.
Maðurinn er jafnframt ákærður fyrir að hafa í tugi skipta yfir sama tímabil sent konunni skilaboð og kynferðislegar ljósmyndir sem voru fallin til þess að smána hana, móðga og særa blygðunarsemi hennar.
Saksóknari fer fram á að maðurinn verði dæmdur fyrir brot á fjölda greina í almennum hegningarlögum. Eru það 1. mgr. 199. greinar. a., 1. og 2. mgr. 218 greinar b og 233. greinar b.
Í 199. gr. a. er tekið á dreifingu og birtingu myndefnis eða texta af nekt eða kynferðislegri háttsemi án samþykkis. Varðar refsing við brotunum sektum og upp í fjögurra ára fangelsi.
Í 218. gr. b. er þeim sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka gert að sæta fangelsi allt að sex árum. Stórfellt brot, sem vísað er til í 2. mgr. laganna, getur varðað allt að 16 ára fangelsi.
Að lokum er í 233. gr. b. tekið á því ef einhver móðgar eða smánar maka sinn eða fyrrverandi maka og verknaðurinn er talinn fela í sér stórfelldar ærumeiðingar. Getur slíkt brot varðað fangelsi allt að tveimur árum.