„Loðnuveiðar með nót eru skemmtilegasti veiðiskapurinn,“ segir Bergur Einarsson, skipstjóri á Venusi NS, skipi Brims hf. Mikið sé að gera á stuttum tíma, mikil umferð skipa á miðunum, oft þurfi menn að athafna sig í mikilli nálægð og ná aflanum upp í góðum gæðum. Þegar komi að tveimur síðustu vikum vertíðar megi ekkert út af bregða ætli menn að ná hámarksverðmætum úr loðnuhrognum. „Þegar veður eru erfið undir lokin og mikið í húfi er þetta starf fyrir spennufíkla,“ segir Bergur.
Nú er kvótinn sá stærsti í tæplega 20 ár og segir Bergur að það sé verðugt verkefni að ná kvótanum, en telur að það ætti að ganga upp. „Það hefur orðið mikil breyting á skipaflotanum síðustu 10-20 árin. Þau bera meira en áður og eru með gott fríborð, en ekki nánast hálf í kafi eins og þegar þau voru með fullfermi í gamla daga.“
Bergur tók við skipstjórn á Hoffelli, uppsjávarskipi Loðnuvinnslunnar 1999, 28 ára gamall. Hann flutti sig síðan til Brims sumarið 2019 og tók við Venusi, en skipið var smíðað í Tyrklandi og kom til landsins 2015.
Bergur segir að breytingar hafi orðið á göngum loðnunnar síðustu ár þó svo að meginhlutinn fari sína hefðbundnu leið til hrygningar við vestanvert landið. Áður hafi yfirleitt verið ein meginganga norðan og vestan úr hafi og kannski 1-2 litlar eftirgöngur.
Núna sé loðnan dreifðari en áður, komi á misjöfnum tíma og meira af henni komi upp fyrir norðan land. Hann rifjar upp í því sambandi þegar Hoffellið fékk tvo farma af bestu hrognaloðnu vertíðarinnar í Húnaflóa þegar komið var fram undir 20. mars 2018.