Oddeyrin fór í sína fyrstu veiðiferð undir merkjum Samherja í vikunni. Með nýstárlegum aðferðum á togveiðum er aflanum dælt úr pokanum í tanka um borð með dælu eða fisksugu. Ýmist verður hægt að koma með fiskinn lifandi í land, blóðgaðan í kælitanka eða ísaðan í körum eins og tíðkast á togurunum.
Hjörtur Valsson, skipstjóri á Oddeyrinni, segir að með búnaði skipsins opnist nýir og spennandi möguleikar til framtíðar, en við togveiðar hafi menn ekki hingað til komið með lifandi fisk í land.
Magnveiðar voru ekki verkefni í fyrsta túrnum heldur var fyrst og fremst verið að læra á búnaðinn og prófa margs konar nýja hluti. Hjörtur segir að trollinu hafi aðeins verið dýft tvívegis í sjó og var afraksturinn 2-3 tonn af þorski sem fékkst út af Skjálfanda.
Í stað þess að taka pokann um borð var hann tekinn á síðuna og fiskinum dælt um borð þar sem hann var blóðgaður í kælitanka. Við löndun í gærmorgun var fiskinum dælt beint úr skipinu í frystihús þar sem hann fékk lokavigtun áður en hann fór í aðgerð.
Eftir lagfæringar á „nokkrum agnúum“ sem komu í ljós er ráðgert að halda á ný til veiða í kvöld. Hjörtur segir að menn haldi áfram að læra og þróa vinnubrögðin, en heilt yfir hafi gengið vel í fyrsta túrnum.