Íslenskum skipum verður heimilt að veiða allt að 662.064 tonnum af loðnu á komandi vertíð. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði reglugerð þess efnis í gær, en loðnuvertíðin verður sú stærsta í 20 ár.
„Það er mjög ánægjulegt að fá tækifæri til að undirrita reglugerð sem gefur væntingar um að komandi vertíð verði sú stærsta í um tvo áratugi. Þetta eru frábærar fréttir fyrir einstaka byggðir í landinu en um leið samfélagið allt enda skapar þetta miklar tekjur fyrir þjóðarbúið og eykur líkur á að okkur takist að vaxa enn hraðar út úr kórónuveirukreppunni á næstu mánuðum,“ segir Kristján Þór í færslu á vef stjórnarráðsins.
Hafrannsóknastofnun kynnti á dögunum veiðiráðgjöf sína fyrir vertíðina 2021/2022 og nam hún 904.200 tonnum. Ísland fær 80% af þessu í samræmi við alþjóðlega samninga og er aflaverðmætið metið á um 50 milljarða króna.