Það stefnir í sögulega loðnuvertíð víðar en á Íslandi og leggur Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) til að heimilt verði að veiða 70 þúsund tonn af loðnu í Barentshafi árið 2022. Ekki hefur verið veidd loðna á þessu svæði frá 2018 og hafa bönn við loðnuveiðum á þessu svæði verið tíð allt frá 1987.
Mun meiri loðna var að finna í Barentshafi við mælingar ársins en hefur verið undanfarin ár, að því er fram kemur á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar Havforskningsinstituttet (HI). „Þetta er sérstaklega tveggja ára [loðna] sem er í miklu magni,“ segir Georg Skaret, ábyrgðaraðili loðnurannsókna í Barentshafi hjá HI.
Fram kemur að ekki hafi mælst jafn stór árgangur af tveggja ára loðnu frá árinu 1991 eða í 30 ár. „Magn eins árs loðnu er einnig yfir langtímameðaltali sem þýðir að við höfum tvö ár í röð sem verður öflug nýliðun í Barentshafi. Þetta lofar góðu í sambandi við þróunina næstu tvö til þrjú ár,“ segir Skaret.
Barentshafsloðnan er aðeins veidd af Norðmönnum og Rússum. 1983 nam heildarafli 1,5 milljónir tonna en síðan hrundi stofninn og veiddust 270 þúsund tonn árið 1986. Þá voru loðnuveiðar bannaðar í Barentshafi 1987 en voru heimilaðar á ný 1991 fram til ársins 1994 þegar banni var komið á á nýjan leik. Á tímabilinu 2016 til 2020 voru loðnuveiðar í Barentshafi aðeins leyfðar árið 2018.