Freyja máluð í litum Gæslunnar

Heimferðin undirbúin. Friðrik Höskuldsson yfirstýrimaður og Einar Valsson skipherra við …
Heimferðin undirbúin. Friðrik Höskuldsson yfirstýrimaður og Einar Valsson skipherra við Freyju í slippnum. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Prófanir á nýja varðskipinu Freyju og búnaði þess fóru fram í Rotterdam í Hollandi í upphafi síðustu viku og gengu þær vel, segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.

Ásgeir segir að Freyja hafi komið vel út úr prófunum og í kjölfar þeirra var skipið tekið í slipp. Þar verður skipið málað í litum Landhelgisgæslunnar og farið í minni háttar lagfæringar. Búast má við að þessi vinna taki um 10-14 daga en það fer eftir veðri hversu vel gengur. Gert er ráð fyrir að skipið verði afhent Landhelgisgæslunni formlega um eða eftir 24. október.

Í kjölfarið verður skipið undirbúið til heimsiglingar og skráningarmál kláruð að sögn Ásgeirs. Fimm úr áhöfn skipsins er þegar komnir til Rotterdam, þar á meðal skipherra, yfirvélstjóri og yfirstýrimaður. Búast má við að skipið komi til heimahafnar í Siglufirði fyrri hluta nóvembermánaðar.

Sem kunnugt er tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í mars sl. að ríkisstjórnin hefði samþykkt tillögu hennar um kaup á nýju varðskipi, sem myndi fá nafnið Freyja.

Ríkiskaup og Landhelgisgæsla Íslands efndu til alþjóðlegs útboðs vegna kaupa á varðskipi. Tvö gild tilboð bárust og var lægra tilboðinu tekið, þ.e. frá fyrirtækinu United Offshore Support GmbH. Kaupverðið er rúmir 1,7 milljarðar íslenskra króna.

Skipið var smíðað í Suður-Kóreu árið 2010 og hét fyrstu árin Vittoria en heitir nú GH Endurance. Það hefur fyrst og fremst þjónustað olíuiðnaðinn. Hið nýja varðskip Freyja er 4.566 brúttótonn og þykir mjög öflugt björgunar- og gæsluskip.

Reykjavík verður áfram heimahöfn varðskipsins Þórs.
Reykjavík verður áfram heimahöfn varðskipsins Þórs. mbl.is/Árni Sæberg

Landhelgisgæslan og dómsmálaráðuneytið tóku í sameiningu þá ákvörðun að heimahöfn varðskipsins Freyju verði Siglufjörður og njóti skipið þjónustu þar og á Akureyri eftir þörfum. Freyja mun fá aðstöðu við Óskarsbryggju, sem er nyrsta bryggja hafnarinnar, nálægt öldubrjótnum. Bryggjan er 160 metra löng og dýpi við hana er átta metrar.

Varðskipið Þór verður áfram gert út frá Reykjavík. Þessari ráðstöfun er ætlað að tryggja öryggi sjófarenda, landsmanna og auðlinda í hafi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: