Bjó í 101 í 38 ár en flutti svo í Fossvoginn

Nanna Rögnvaldardóttir er hin eina sanna matardrottning Íslands. Hún hefur gefið út fjölda matreiðslubóka og heldur úti vinsælu matarbloggi. Á dögunum gaf hún út bókina Borð fyrir einn þar sem hún gefur lesendum innsýn í sinn eigin heim. Nanna hefur búið ein í 20 ár og eldar ofan í sig sjálfa á hverjum degi. 

Hún segist vera mikill einfari sem hugsar um mat í tíma og ótíma. Þegar ég spyr Nönnu hvort það hafi aldrei hvarflað að henni að fara í ástarsamband er svarið einfalt. 

„Nei,“ segir Nanna. 

„Ég held ég sé ekki mjög sambúðarhæf. Ég er svo sérvitur,“ segir hún. 

Heimili Nönnu er sér heimur út af fyrir sig. Hún féll fyrir íbúðinni vegna birtunnar en líka vegna þess að þar er gott að taka ljósmyndir. Í dag tekur hún allar myndir sjálf í bækur sínar. Hún segist hafa lært mikið af því að vinna með matarljósmyndurum í gegnum tíðina en svo hafi hún líka þurft að reka sig á og læra upp á eigin spýtur. 

„Ég er ekki mikið fyrir að fara út af heimilinu, nema þegar ég fer til útlanda,“ segir Nanna. 

mbl.is