Thunberg krefst hreinskilni stjórnmálafólks

Greta Thunberg.
Greta Thunberg. AFP

Lofts­lagsaðgerðarsinn­inn Greta Thun­berg sagði í sam­tali við BBC að ráðstefn­ur muni ekki leiða til aðgerða í lofts­lags­mál­um nema al­menn­ing­ur krefj­ist einnig aðgerða. Hún sagði að al­menn­ing­ur þyrfti að jafna nú­ver­andi kerfi við jörðu. 

„Breyt­ing­arn­ar verða þegar al­menn­ing­ur krefst aðgerða. Við get­um því ekki bú­ist við því að allt ger­ist á þess­um ráðstefn­um,“ sagði Thun­berg. Viðtalið var tekið af til­efni lofts­lags­ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna sem verður hald­in í Glasgow í Skotlandi frá 31. októ­ber til 12. nóv­em­ber. Thun­berg mun mæta á ráðstefn­una. 

Thun­berg ásakaði stjórn­mála­fólk um að af­saka sig.

„Verið hrein­skil­in um það á hvaða stað þið eruð, um það hvaða mis­tök hafa verið gerð, um það hvernig þið eruð enn að bregðast okk­ur,“ sagði Thun­berg.

„Það er mín sann­fær­ing að ár­angri sé náð þegar fólk nær loks­ins að átta sig á því hvað ástandið er slæmt og því að við þurf­um á mikl­um breyt­ing­um að halda, að við þurf­um að jafna nú­ver­andi kerfi við jörðu vegna þess að þannig verða til breyt­ing­ar.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina