Samherji og ÚA greiddu 110 milljónir í hafnargjöld

Skipverjar á Björgu EA-7 í Akureyrarhöfn. Hafnargjöld skipa Samherja og …
Skipverjar á Björgu EA-7 í Akureyrarhöfn. Hafnargjöld skipa Samherja og ÚA námu 16,7% af tekjum Hafnarsamlags Norðurlands í fyrra. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Samherji og Útgerðarfélag Akureyringa (ÚA), dótturfélag Samherja, greiddu alls 110,7 milljónir króna í hafnargjöld til Hafnarsamlags Norðurlands og Dalvíkurhafna eða 23% af greiddum hafnargjöldum.

Skipum og bátum er skylt að greiða fyrir þjónustu hafna og felst í því lestar- og bryggjugjöld, móttaka og vigtun á sjávarafla. Togarar Samherja og ÚA að mestu á Akureyri og á Dalvík en þar eru fiskvinnslur félaganna staðsettar.

Í fyrra greiddi Samherji 64,9 milljónir í hafnargjöld til Hafnarsamlags Norðurlands, að því er fram kemur í færslu á vef fyrirtækisins. Það gerir um 16,7% af heildartekjum Hafnarsamlagsins sem námu 388 milljónum árið 2020. Hafnasamlag Norðurlands rekur hafnirnar á Akureyri, Grímsey, Hrísey, Hjalteyri, Svalbarðseyri og Grenivík.

„Sem betur fer erum við ekki með öll eggin í sömu körfunni. Skemmtiferðaskipin hafa skipt okkur miklu máli en tekjur vegna þeirra brustu algjörlega í fyrra vegna heimsfaraldursins. Góðu heilli tókst Samherja og ÚA að gera út flotann í faraldrinum og gátu séð fiskvinnsluhúsunum fyrir hráefni. Ef það hefði ekki gengið upp, hefðu tekjur okkar dregist enn frekar saman með tilheyrandi afleiðingum,“ er haft eftir Pétri Ólafssyni hafnarstjóra í færslunni.

Tæp 50% í Dalvík

Samanlagt greiddi Samherji og ÚA 45,8 milljónir króna í hafnargjöld til Dalvíkurhafna eða 49,9% af heildartekjum hafnarinnar sem námu 91,7 milljónum á síðasta ári.

„Þessar tölur undirstrika með áberandi hætti mikilvægi Samherja í sveitarfélaginu. Höfnin er á margan hátt okkar lífæð og þar vega tekjur vegna starfsemi Samherja þungt í allri tekjuöflun,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri og hafnarstjóri í Dalvíkurbyggð.

Helmingur af tejum Dalvíkurhafnar má rekja til samstæðunnar.
Helmingur af tejum Dalvíkurhafnar má rekja til samstæðunnar. mbl.is/Þorgeir Baldursson
mbl.is