Síldarvertíðin byrjar vel hjá Barða

Barði NK landar síld í Neskaupstað í morgun.
Barði NK landar síld í Neskaupstað í morgun. Ljósmynd/Síldarvinnslan

„Þessi vertíð byrjar vel. Við fengum aflann í fimm holum í Kolluálnum og afli í hverju holi var 150-400 tonn. Það var dregið í 3-6 tíma,“ segir Atli Rúnar Eysteinsson, skipstjóri á Barði NK, á vef Síldarvinnslunnar.

Skipið kom til hafnar í Neskaupstað með fyrsta farminn af íslenskri sumargotssíld. Aflinn nam 1.320 tonnum og verður hann allur unninn í vinnslu Síldarvinnslunnar.

„Hér er um að ræða fína millisíld og sýkingin sem hrjáð hefur þennan stofn undanfarin ár er ekki sjáanleg núna. Það var töluvert af síld að sjá þegar við yfirgáfum miðin þannig að þetta lítur bara býsna vel út,“ segir Atli Rúnar.

Í gærkvöldi héldu einnig skipin Börkur NK og Beitir NK til síldarveiða vestur af landinu. Skipin munu eiga samstarf um veiðarnar og er gert ráð fyrir að annað skipanna komi til Neskaupstaðar á mánudagsmorgun.

mbl.is