„Ekki útlit fyrir að samningar náist án átaka“

Sjómenn að störfum um borð í Engey.
Sjómenn að störfum um borð í Engey. Ljósmynd/Borgar Björgvinsson

Þing Sjómannasambands Íslands (SSÍ) skorar á aðildarfélög sambandis að hefja undirbúning aðgerða til að „knýja á um alvöru samningaviðræður við útvegsmenn.“ Telur sambandið ekki hægt að komast áfram í samningaviðræðum án átaka og sakar SSÍ viðsemjendur um að draga lappirnar í viðræðunum.

Þetta er meðal þess sem samþykkt var á 32. þingi Sjómannasambandsins sem hófst í gær og lauk í hádeginu í dag.

Í ályktun sinni „vítir [SSÍ] Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi harðlega fyrir að í áraraðir að ekki sé gerður kjarasamningur við sjómenn um þau sjálfsögðu réttindamál sem önnur samtök launafólks hafa þegar samið um. Nú eru liðin tæp 2 ár frá því kjarasamningar sjómanna runnu út. Vegna þvergirðingsháttar útgerðarinnar er ekki útlit fyrir að samningar náist án átaka.“

Valmundur Valmundsson var á þinginu endurkjörinn formaður sambandsins til tveggja ára.

Valmundur Valmundsson var endurkjörinn formaður Sjómannasamband Íslands.
Valmundur Valmundsson var endurkjörinn formaður Sjómannasamband Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Harma sjómenn að ekki hafi verið sýndur vilji til að fallast á kröfu um aukið mótframlag í lífeyrissjóð og vísa til hagnað útgerðarfyrirtækja. „Þingið minnir á að hagnaður útgerðarinnar var 181.000 milljónir króna á síðustu fimm árum eða um 36.000 milljónir króna á ári að meðaltali.“

Þá hafnar SSÍ alfarið hugmyndum um að sjómenn taki þátt í greiðslu veiðigjalda og annars rekstrarkostnaðs. „Veiðigjöldin eru skattur á útgerðina sem stjórnvöld kjósa að leggja á hagnað hennar og er sá skattur stjórnvalda sjómönnum óviðkomandi.“

mbl.is