Á meðan sumt fólk er ekki byrjað að hugsa út í hvað það ætlar að gefa í jólagjafir í næsta mánuði er tónlistarmaðurinn Elton John búinn að skipuleggja jólin 2022. Hinn 74 ára gamli John ætlar í jólafrí til Ástralíu um þar næstu jól.
„Ég og fjölskylda mín ætlum til Ástralíu um jólin 2022. Strákarnir mín elska Ástralíu,“ sagði John í útvarpsviðtali á dögunum að því er fram kemur á vef Daily Mail. Tónlistarmaðurinn er giftur David Furnish en saman eiga þeir tvo syni.
John gaf í skyn að hann myndi nýta ferðina til þess að koma fram á tónleikum. „Við ætlum að vera í fríi en það er góður séns á því að ég haldi nokkra tónleika í Ástralíu.“
Það er sól og sumar í Ástralíu í desember og öðruvísi að upplifa jólin þar fyrir þá sem eru vanir jafnvel snjókomu og kulda á jólunum. John er breskur og Furnish frá Kanada.
Elton John og David Furnish byrjuðu saman fyrir tæpum 30 árum og gengu í hjónaband árið 2014. Þeir eignuðust eldri son sinn með hjálp staðgöngumóður 25. desember árið 2010 og yngri sonur þeirra kom í heiminn 11. janúar 2013. Sama konan gekk með báða drengina.