Knýja á um alvörusamningaviðræður

Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasamband Íslands.
Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasamband Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þing Sjómannasambands Íslands skorar á aðildarfélög sambandsins að hefja nú þegar undirbúning aðgerða til að knýja á um alvörusamningaviðræður við útvegsmenn. Samninganefnd sambandsins taki málið til umfjöllunar svo fljótt sem auðið er og móti stefnu um sameiginlegar aðgerðir til framtíðar.

Kemur þetta fram í ályktun þings Sjómannasambandsins sem fram fór á fimmtudag og föstudag.

Kanna hug félagsmanna

„Við þurfum að enda þessa deilu einhvern veginn. Ef við þurfum að fara í aðgerðir til þess, verður svo að vera,“ segir Valmundur Valmundsson sem endurkjörinn var formaður til næstu tveggja ára.

Valmundur lagði jafnframt áherslu á að aðildarfélögin færu með samningsumboðið og þau tækju sínar ákvarðanir. Nú færu forystumenn þeirra að kanna hug félagsmanna.

Fram hefur komið að hugsanlegar verkfallsaðgerðir sjómanna gætu tengst loðnuvertíð í vetur. Spurður hvort verkfallshljóð sé komið í félagsmenn segist Valmundur ekki vita það. En hljóðið sé að þyngjast. Menn telji ótækt að vera kjarasamningslausir í tvö ár.

Krafa um viðræður

Í ályktun eru Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, samningsaðili sjómannafélaganna, vítt harðlega fyrir að gera ekki kjarasamninga við sjómenn um sjálfsögð réttindamál sem önnur samtök launafólks hafi þegar samið um. Aðallega hefur strandað á kröfu sjómanna um 3,5% viðbótarframlag í lífeyrissjóð. Þess er krafist að gengið verði þegar til raunverulegra viðræðna við samninganefnd Sjómannasambands Íslands.

Vakin er athygli á því að útgerðin hafi hagnast um 36 þúsund milljónir á ári, að meðaltali síðustu fimm árin, en kostnaðarauki af lífeyrissjóðskröfunni sé innan við eitt þúsund milljónir á ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: