Brim hf. er, eins og áður, með flest heildarþorskígildi á fiskveiðiárinu, en næst á listanum eru Ísfélag Vestmannaeyja, Síldarvinnslan, Samherji, Vinnslustöðin, Skinney-Þinganes, Eskja og FISK-Seafood. Eftir tilkynningu um loðnukvóta upp á um 630 þúsund tonn til uppsjávarflotans um miðjan október hefur orðið breyting á listanum og fyrirtæki sem eru með mikla hlutdeild í loðnu raðað sér í efstu sætin. Fyrirtæki eins og FISK Seafood og Þorbjörn hafa færst neðar á listanum.
Hár þorskígildisstuðull er nú á loðnu og gerði það að verkum að Brim fór upp úr kvótaþakinu eins og greint var frá í Morgunblaðinu í síðustu viku. Leyfilegt heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda er 12%, en Brim hf. er nú með 13,2% í heildina. Fyrirtækið hefur sex mánuði til að bregðast við þessari stöðu. Eftir sem áður er Brim með 18% í loðnu, en þar er hámarkið 20%.
Útgerðum með aflahlutdeild fækkaði árlega frá fiskveiðiárinu 2005/2006 eins og sýnt er á meðfylgjandi stöplariti Fiskistofu. Á fiskveiðiárinu 2019/2020 fjölgaði þeim á ný úr 442 í 711. Fjölgunin skýrist af hlutdeildarsetningu á hlýra og makríl, að því er fram kemur í frétt á vef Fiskistofu. Síðustu tvö fiskveiðiár hefur þeim fækkað á ný og við síðustu fiskiveiðiáramót voru 664 útgerðir með aflahlutdeild. Mörg þessara fyrirtækja eru með mjög litla aflahlutdeild og fengu ekki úthlutað aflamarki í upphafi fiskveiðiársins þegar aflamarki var úthlutað á 423 skip í eigu 308 aðila.
Skipum í aflamarkskerfinu hafði fjölgað um fimm á milli ára og eru nú 181. Bátar með krókaaflamark voru 242 í upphafi fiskveiðiársins og fækkar um þrjá. Með mesta heildarhlutdeild í þorskígildum í krókaaflamarki eru Grunnur, Jakob Valgeir, Háaöxl, Stakkavík og Nesver.