Málsatvikalýsing á lokametrunum

Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar.
Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar. mbl.is/Golli

Und­ir­bún­ings­nefnd kjör­bréfa­nefnd­ar Alþing­is er nú á loka­metr­un­um að setja sam­an máls­at­vika­lýs­ing­ar á taln­ingu at­kvæða fyr­ir Norðvest­ur­kjör­dæmi og er gagna­öfl­un langt kom­in. Þá stefn­ir nefnd­in á að fara í vett­vangs­ferð til Borg­ar­ness snemma í fyrra­málið þar sem nefnd­ar­menn munu skoða kjör­gögn­in og leita svara við spurn­ing­um sem ekki hef­ur enn tek­ist að varpa ljósi á.

„Þetta mjak­ast allt. Við erum ágæt­lega stödd núna en hins veg­ar þá eig­um við svo­lítið í land með að kom­ast að niður­stöðum,“ seg­ir Birg­ir Ármanns­son, formaður nefnd­ar­inn­ar, spurður út í gang mála.

Gagna­öfl­un að mestu lokið

Hann seg­ir gagna­öfl­un nú að mestu lokið en að hins veg­ar séu umræður um ýmsa mats­kennda þætti eft­ir sem lúta að upp­lýs­ing­um sem nefnd­in hef­ur und­ir hönd­um. Þarf meðal ann­ars að skoða þá út frá laga­leg­um sjón­ar­miðum.

„Sá lag­arammi sem við þurf­um að taka til­lit til eru nátt­úru­lega kosn­inga­lög­in og þingsköp Alþing­is. Það sem skipt­ir mestu máli í þessu sam­bandi eru ákveðnir mats­kennd­ir þætt­ir sem snúa að því hvort gall­ar á fram­kvæmd kosn­ing­anna séu þess eðlis að þeir geti leitt til ógild­ing­ar kjör­bréfa. Það er það sem kosn­inga­lög­in kveða á um í sam­bandi við mat á niður­stöðu kosn­inga.“

Máls­at­vika­lýs­ing á loka­metr­um

Und­ir­bún­ings­nefnd­in er nú á loka­metr­un­um að setja sam­an end­an­lega máls­at­vika­lýs­ingu. Drög að lýs­ing­unni birt­ust á vef Alþing­is á mánu­dag og hef­ur nefnd­in óskað eft­ir at­huga­semd­um. Hafa þeir nú þegar fengið nokkr­ar og er bú­ist við að þeim muni fjölga fyr­ir lok dags.

„Til­gang­ur okk­ar með því að birta þetta op­in­ber­lega er að fá fram at­huga­semd­ir upp á það að máls­at­vika­lýs­ing­in geti orðið sem rétt­ust og ná­kvæm­ust miðað við aðstæður.

Við vökt­um sér­stak­lega at­hygli hjá þeim sem sendu inn kær­ur, hjá yfir­kjör­stjórn­ar­mönn­um og öðrum sem við höf­um verið í sam­skipt­um við. Þeir sem eru að senda at­huga­semd­ir eru úr þeim hópi.“

Þriðja vett­vangs­ferðin á morg­un

Nefnd­in stefn­ir nú í þriðju vett­vangs­ferðina til Borg­ar­ness í fyrra­málið þar sem að ákveðnir þætt­ir er varða kjör­gögn­in verða skoðuð. Birg­ir vildi ekki fara nán­ar út í hvað væri verið að fara að skoða en að greint yrði frá því seinna í fund­ar­gerð nefnd­ar­inn­ar.

„Þegar við erum í svona ferli þá auðvitað vakna ýms­ar spurn­ing­ar í málsmeðferðinni. Þetta er liður í því að reyna að svara þeim spurn­ing­um sem við get­um.“

mbl.is