Hóf framleiðslu íslenskra toghlera

„Eins og í öllum góðum sögum þá hljóp smá snurða …
„Eins og í öllum góðum sögum þá hljóp smá snurða á þráðinn í fyrstu haustbrælunni en með minniháttar breytingum á stillingum tókst að koma öllu aftur í gott horf,“ segir Pétur um reynsluna af notkun toghleranna í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhugavert verður að fylgjast með þeim viðtökum sem ABYSS Togveiðibúnaður ehf. mun fá hjá íslenskum útgerðum enda ekki á hverjum degi að nýr toghleraframleiðandi birtist á íslenska markaðinum.

Pétur Jensen er maðurinn á bak við ABYSS en hann er menntaður vélvirki og á að baki þriggja áratuga reynslu á sviði hönnunar og smíði togveiðibúnaðar. Pétur réð sig til J. Hinrikssonar ehf. árið 1991 og stýrði m.a. smiðju fyrirtækisins í Mexíkó í þrjú ár en sneri þá aftur til Íslands til að taka við stöðu verkstjóra, samhliða því að hann fór að láta til sín taka við hönnun og betrumbætur á toghlerunum sem J. Hinriksson framleiddi.

Eins og lesendur muna keypti Hampiðjan rekstur J. Hinrikssonar árið 1999 og lagði í framhaldinu niður toghleraframleiðsluna á Íslandi, og féll það Pétri í skaut að halda utan um framleiðslu erlendis á Poly-Ice-toghlerum. Upp úr 2013 færðist hann til Thyboron í Danmörku eftir að Thyboron keypti Poly-Ice af Hampiðjunni og á hann m.a. heiðurinn af hönnun margra Thyboron-toghlera sem ættu að vera íslenskum skipstjórum að góðu kunnir.

Smækkuð módel af ABYSS-toghlerunum. Verður gaman að sjá hvort þau …
Smækkuð módel af ABYSS-toghlerunum. Verður gaman að sjá hvort þau ná fótfestu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir um það bil tveimur árum ákvað Pétur að venda sínu kvæði í kross og spreyta sig á eigin rekstri. Til að gera langa sögu stutta er búið að smíða fyrsta parið af ABYSS-toghlerum, sem Pétur hefur hannað frá grunni, og hafa þeir reynst vel við veiðar. „Eftir að hafa stofnað fyrirtækið ræddi ég við Eirík Jónsson, skipstjóra hjá Brimi, og í framhaldi við Birki Hrannar Hjálmarsson útgerðarstjóra og varð úr að þeir keyptu af mér fyrsta parið. Hafa toghlerarnir verið í notkun í allt sumar og gengið alveg ljómandi vel,“ útskýrir Pétur.

„Eins og í öllum góðum sögum þá hljóp smá snurða á þráðinn í fyrstu haustbrælunni en með minniháttar breytingum á stillingum tókst að koma öllu aftur í gott horf. Fékk ég að fara í einn túr með áhöfninni til að geta fylgst betur með og verð ég að segja að skipverjar eru miklir kappar og gott fólk að vinna með.“

Skuttogarinn Akurey í eigu sjávarútvegsfyrirtækisins Brims hf.
Skuttogarinn Akurey í eigu sjávarútvegsfyrirtækisins Brims hf. mbl.is/Þorgeir

Framleiðsla aftur til Íslands

Erfiðlega gekk að finna aðila á Íslandi sem gat smíðað ABYSS-toghlerana á samkeppnishæfu verði og þykir Pétri það miður. Varð úr að smíða fyrsta parið erlendis en segir Pétur að hann trúi að á Íslandi sé hægt að framleiða toghlera á samkepnishæfu framleiðsluverði þar sem erlendir framleiðendur séu oft á tíðum að glíma við hærri launakostnað, aðföng þeirra oft dýrari og orkukostnaður hærri en á Íslandi.

Pétri þætti gaman að sjá toghleraframleiðslu færast aftur til Íslands og var slíkur iðnaður blómlegur fyrr á árum. „Síðasta fyrirtækið sem sinnti hleraframleiðslu að einhverju marki var Hleragerðin og hefur öðrum fyrirtækjum gengið erfiðlega að fóta sig á þessu sviði,“ segir Pétur og bendir á að oft hafi fyrirtæki hætt toghlerasmíði eftir yfirtöku stærra fyrirtækis sem hafi metið það sem svo að framleiðslan væri ekki nægilega arðbær. „Öðrum fyrirtækjum hefur ekki tekist að ná góðri fótfestu og hjálpar ekki til að toghlerasmíði getur verið mjög sveiflukennd og oft tvö til þrjú ár á milli endurnýjana.“

Pétri þætti gaman að endurvekja íslenska toghleraiðnaðinn: „Það sem þarf er ákveðinn stöðugleiki, og að hafa nokkra fasta kúnna og ætti þá að vera hægt að framleiða íslenska toghlera á samkeppnishæfu verði – svo fremi að aðkomu milliliða sé haldið í lágmarki. Að hafa hönnun og framleiðslu á Íslandi ætti líka að þýða að kaupandi og seljandi geti átt í mun nánara samstarfi og hægt að koma hratt og vel til móts við alls kyns óskir og hugmyndir um breytingar, betrumbætur og sérþarfir viðskiptavina.“

Einfaldleikinn bestur

Meðal þess sem aðgreinir hlera ABYSS frá vöru keppinautanna er að með hönnun sinni er Pétur ekki að eltast við neinar töfralausnir, eins og hann orðar það. Er útgangspunkturinn í hönnuninni að toghlerarnir séu áreiðanlegir og einfaldir í notkun og þjónusta við viðskiptavini sé góð.

„ABYSS-toghlerarnir eiga að þjóna hlutverki sínu vel, hafa góðan skverkraft, vera stöðugir og góðir í notkun á allan hátt, með hæfilegt viðnám og vel smíðaðir. Virðast sumir framleiðendur hafa farið ögn fram úr sjálfum sér í toghlerahönnun sem t.d. leggur ofuráherslu á að lágmarka viðnám með eldsneytissparnað í huga, en hlerarnir síðan reynst vera erfiðir í meðförum auk þess sem deila má um hvort hönnunin hafi í raun nokkur áhrif á eldsneytisnotkun skipa við veiðar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: