Aðild að bandalagi gegn olíuvinnslu verið rædd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, um­hverf­is- og auðlindaráðherra, kveðst þykja það eðli­legt að Ísland setji sér sjálf­stæð mark­mið í lofts­lags­mál­um sem ganga lengra en þau sem við fáum í gegn­um sam­starf við Evr­ópu og Nor­eg. Seg­ir hann þá aðild Íslands að banda­lag­inu BOGA (e. Beyond oil and gas alli­ance) hafi verið rædd og sé til skoðunar.

Í stað þess að bíða til árs­ins 2025 líkt og áætlað var, hafa aðild­ar­ríki Sam­einuðu þjóðanna verið hvött til að skila inn upp­færðum los­un­ar­mark­miðum fyr­ir ráðstefnu næsta árs.

Fyr­ir COP26 lofts­lags­ráðstefn­una sem fór fram í Glasgow á dög­un­um hafði borið á ein­hverri gagn­rýni í ljósi þess að Ísland hafði ekki sett sér sjálf­stæð los­un­ar­mark­mið um­fram þau sem við fylgj­um í ljósi sam­starfs okk­ar við Evr­ópu­sam­bandið og Nor­eg. Þau mark­mið kveða á um 55% sam­drátt í los­un á gróður­húsaloft­teg­und­um fyr­ir árið 2030 og kol­efn­is­hlut­leysi fyr­ir árið 2040.

„Ég er þeirr­ar skoðunar að við eig­um að skoða hvort við ætt­um að setja okk­ur sjálf­stæð mark­mið sem ganga enn lengra. Mér finnst eðli­legt að við sem rík þjóð ger­um það. Ég get ekki svarað því hvað Ísland mun koma með að borðinu á næsta ári en þetta er það sem mér finnst að við þurf­um að skoða núna,“ seg­ir Guðmund­ur, spurður í þessa gagn­rýni og hvort Ísland ætli sér að gera ein­hverj­ar breyt­ing­ar fyr­ir næstu ráðstefnu.

Sam­komu­lagið skref fram á við

COP26 ráðstefn­unni lauk á laug­ar­dag eft­ir að samn­ingaviðræður höfðu dreg­ist á lang­inn, eins og bú­ist var við. Kom þá ekki á óvart að loka sam­komu­lagið sem skrifað var und­ir af öll­um aðild­ar­ríkj­un­um hefði tekið smá breyt­ing­um frá fyrstu drög­um og þóttu ákvæðin held­ur væg­ari en þau sem upp­haf­lega var lagt upp með. Má þar meðal ann­ars nefna breyt­ing­una er varðar kol, en í stað þess að kveðið væri á um stöðvun kola­notk­un­ar kom fram að draga þyrfti úr henni. Þótti þetta held­ur óljóst og vægt til orða tekið.

Þá eru mark­miðin sem komu þar fram ekki tal­in duga til að tak­marka hlýn­un lofts­lags­ins við 1,5 gráðu.

Spurður hvað hon­um finn­ist um þessa lok­aniður­stöðu, seg­ir ráðherra marga já­kvæða þætti hafa komið fram þó svo að vissu­lega hefði verið von­brigði að metnaðarfyllri mark­mið hefðu ekki nást. Sem dæmi væri skref fram á við að tek­ist hefði að klára út­færsl­ur á nokkr­um grein­um Par­ís­arsátt­mál­ans sem stóðu út af. Þá væri einnig já­kvætt að sjá að kveðið væri á um að dregið yrði úr notk­un jarðefna­eldsneyt­is og niður­greiðslu þess.

„Ég er al­veg ágæt­lega bjart­sýnn, maður skynjaði vel á fund­un­um að fólk hef­ur raun­veru­lega djúp­ar áhyggj­ur af því hvert stefn­ir og þess vegna held ég að við mun­um fær­ast nær þessu mark­miði á næsta ári og von­andi kom­ast alla leið.

Ef við horf­um aðeins á sög­una síðustu sex ár þá stefndi í 3,3 gráðu meðal­hlýn­un fyr­ir Par­ís­ar­sam­komu­lagið miðað við þau lof­orð sem ríki heims höfðu sett fram þá. Fyr­ir fund­inn í Glasgow núna vor­um við kom­in niður í 2,7 gráðu hlýn­un og eft­ir fund­inn erum við senni­lega kom­in niður í 2,4 gráðu hlýn­un miðað við þau lof­orð sem voru gef­in núna. Þetta er ekki að ger­ast nógu hratt en þetta er samt að fara í rétta átt,“ seg­ir Guðmund­ur.

Til skoðunar að ganga í BOGA

Ráðherra taldi einnig sjálf­stæðar yf­ir­lýs­ing­ar sem komu fram á ráðstefn­unni, sem ná um­fram þau lof­orð er koma fram í sam­komu­lag­inu, já­kvæðar. Kveða þær meðal ann­ars á um að hætta notk­un kola, draga úr los­un met­ans og stöðva eyðingu skóg­ar.

„þetta er oft upp­hafið að ein­hverju sem að gæti fest sig meira í sessi og gæti skilað sér inn í hert­um mark­miðum á næsta ári. Það eru líka já­kvæð teikn á lofti um­fram það sem var form­lega ákveðið eða samþykkt á þess­um fundi.“

Auk þess var aðgerðarbanda­lagi komið á fót af Dan­mörku og Kosta Ríka sem miðar að því að stöðva frek­ari olíu- og gas­vinnslu í heim­in­um. Hef­ur það verið nefnt BOGA (e. Beyond oil and gas alli­ance). Aðild­ar­ríki eru hvött til að stöðva vinnslu og leit þess­ara jarðefna­eldsneyta. Auk Dan­merk­ur og Kosta Ríka hafa Frakk­land, Svíþjóð, Græn­land, Wales, Írland og Qu­e­bec, einnig gengið í banda­lagið.

Spurður hvort Íslend­ing­ar hygg­ist taka þátt, seg­ir Guðmund­ur það hafa verið rætt. Hann seg­ir þó kosn­ing­ar og stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður hafa sett strik í reikn­ing­inn.

„Þetta hef­ur ekki verið tekið af­greiðslu en þetta hef­ur verið kynnt og fjallað um á vett­vangi ráðherra­nefnd­ar um lofts­lags­mál.“

mbl.is