„Menn verða að vera þolinmóðir“

Börkur NK er nýjasta skip uppsjávarflotans og tekur nú þátt …
Börkur NK er nýjasta skip uppsjávarflotans og tekur nú þátt í einni stærstu loðnuvertíð í tvo áratugi. Ljósmynd/Kristín Hávarðsdóttir

Áhafnirnar á tveimur skipum Síldarvinnslunnar, Berki NK og Bjarna Ólafssyni AK, hafa leitað að loðnu á miðunum undanfarna daga. Skipverjar hafa orðið varir við loðnu á vestanverðum Halanum, en leiðindaveður er á miðunum.

Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri.
Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum búnir að leita á Kolbeinseyjarhryggnum, norðan við Strandagrunn og Þverálshorn og erum núna djúpt vestur á Halanum. Það er fyrst núna sem við sjáum loðnutorfur en þá bregður svo við að það er leiðindaveður. Hérna er bölvuð bræla, 25-28 metrar og sjórinn mínus ein gráða,“ er haft eftir Hjörvari Hjálmarssyni, skipstjóra á Berki, á vef Síldarvinnslunnar.

„Það á hins vegar að lægja í kvöld og þá verður einhver friður í sólarhring eða svo samkvæmt spá. Togarafréttir greina frá því að vart verði við meira líf á svæðinu hérna og fiskur sem fæst er fullur af loðnu. Það er semsagt loðna hér á ferðinni en það er fyrst núna sem við verðum varir við einhverjar alvörulóðningar. Menn verða að vera þolinmóðir í loðnuleitinni. Þetta á allt eftir að koma og það er mikilvægt að fylgjast vel með. Loðnutorfurnar sem við sjáum hér standa djúpt en við sjáum til hvað gerist þegar veðrið batnar,“ segir Hjörvar.

mbl.is