„Menn verða að vera þolinmóðir“

Börkur NK er nýjasta skip uppsjávarflotans og tekur nú þátt …
Börkur NK er nýjasta skip uppsjávarflotans og tekur nú þátt í einni stærstu loðnuvertíð í tvo áratugi. Ljósmynd/Kristín Hávarðsdóttir

Áhafn­irn­ar á tveim­ur skip­um Síld­ar­vinnsl­unn­ar, Berki NK og Bjarna Ólafs­syni AK, hafa leitað að loðnu á miðunum und­an­farna daga. Skip­verj­ar hafa orðið var­ir við loðnu á vest­an­verðum Hal­an­um, en leiðinda­veður er á miðunum.

Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri.
Hjörv­ar Hjálm­ars­son skip­stjóri. Ljós­mynd/​Aðsend

„Við erum bún­ir að leita á Kol­beins­eyj­ar­hryggn­um, norðan við Stranda­grunn og Þver­áls­horn og erum núna djúpt vest­ur á Hal­an­um. Það er fyrst núna sem við sjá­um loðnutorf­ur en þá bregður svo við að það er leiðinda­veður. Hérna er bölvuð bræla, 25-28 metr­ar og sjór­inn mín­us ein gráða,“ er haft eft­ir Hjörv­ari Hjálm­ars­syni, skip­stjóra á Berki, á vef Síld­ar­vinnsl­unn­ar.

„Það á hins veg­ar að lægja í kvöld og þá verður ein­hver friður í sól­ar­hring eða svo sam­kvæmt spá. Tog­ara­f­rétt­ir greina frá því að vart verði við meira líf á svæðinu hérna og fisk­ur sem fæst er full­ur af loðnu. Það er semsagt loðna hér á ferðinni en það er fyrst núna sem við verðum var­ir við ein­hverj­ar al­vöru­lóðning­ar. Menn verða að vera þol­in­móðir í loðnu­leit­inni. Þetta á allt eft­ir að koma og það er mik­il­vægt að fylgj­ast vel með. Loðnutorf­urn­ar sem við sjá­um hér standa djúpt en við sjá­um til hvað ger­ist þegar veðrið batn­ar,“ seg­ir Hjörv­ar.

mbl.is