„Noregur sýnir litla viðleitni til að semja“

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir Norðmenn ganga til viðræðna …
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir Norðmenn ganga til viðræðna með skilyrði sem önnur strandríki geta ekki samþykkt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS) telja Norðmenn ekki sýna vilja til að semja um mak­ríl, en tals­menn norskra út­gerða segja fyr­ir sitt leiti að for­senda skipt­ing­ar milli ríkja sé svæðisteng­ing stofns­ins. Aðferðin er mein­gölluð að mati SFS.

„Það er ljóst að Nor­eg­ur sýn­ir litla viðleitni til að semja. Nor­eg­ur ætl­ar ekki að eiga sam­ræður við önn­ur ríki nema þau samþykki al­var­lega gölluð skil­yrði þeirra,“ skrif­ar Heiðrún Lind Marteins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri SFS, um viðræður um nýt­ingu mak­ríls í aðsendri grein sem birt var á vef bresku sjáv­ar­út­vegs­frétta­veit­unn­ar Fish Focus.

Til­efni skrifa Heiðrún­ar Lind­ar var aðsend grein sem birt var í sama miðli. Í þeirri grein segja þeir Audun Maråk, fram­kvæmda­stjóri Fiskebåt, sam­taka norskra út­gerðarmanna, og Jonny Ber­fjord, stjórn­ar­formaður Fiskebåt, öll strand­rík­in bera sam­eig­in­lega ábyrgð á mak­ríl­stofn­in­um. „Þess vegna þurfa Evr­ópu­sam­bandið, Bret­land, Fær­eyj­ar, Græn­land, Rúss­land, Ísland og Nor­eg­ur öll að leggja sitt af mörk­um, leita mála­miðlana og sætta sig við ein­hverja ósigra í þessu máli.“

Audun Maråk, framkvæmdastjóri Fiskebåt, samtaka norskra útgerðarmanna.
Audun Maråk, fram­kvæmda­stjóri Fiskebåt, sam­taka norskra út­gerðarmanna. Ljós­mynd/​Fiskebåt

Mál­um frestað

Samn­inga­fund­ir um upp­sjáv­ar­stofn­ana kol­munna, norsk-ís­lenska síld og mak­ríl hóf­ust í London í októ­ber en ekk­ert heild­ar­sam­komu­lag milli ríkj­anna gild­ir um veiðar úr þess­um stofn­um. Öll rík­in viður­kenna veiðiráðgjöf Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðsins (ICES) en eru ósam­mála um skipt­ingu afl­ans og hafa þess­ir stofn­ar því all­ir verið of­veidd­ir miðað við ráðgjöf.

Mikl­ar von­ir voru bundn­ar við að eitt­hvað myndi þokast áfram í viðræðum ríkj­anna um skipt­ingu veiðanna, en fátt áorkaðist annað en sam­komu­lag um að veiði á kol­munna og norsk-ís­lenskri síld skuli ekki vera um­fram ráðgjöf ICES. Auk þess var ákveðið að fela vís­inda­mönn­um að kort­leggja út­breiðslu kol­munna og upp­færa fyrri sam­an­tekt frá 2013. Þá náðist ekki held­ur ár­ang­ur á sviði mak­ríls og munu strand­rík­in áfram út­hluta ein­hliða veiðiheim­ild­um í teg­und­un­um þrem­ur.

Ákveðið var að halda áfram viðræðum eft­ir ára­mót með það að mark­miði að geta tryggt sjálf­bær­ar veiðar strax á vertíðum 2022, en stór­ir kaup­end­ur upp­sjáv­ar­af­urða hafa lýst því að þeir hyggj­ast kaupa minna, borga minna eða ein­fald­lega að hætta að kaupa afurðirn­ar ef veiðar séu ekki stundaðar með sjálf­bær­um hætti.

Hins veg­ar má sjá í greina­skrif­um hag­munaaðila að enn kann að vera nokkuð í land.

Dreifing kolmunna, makríls og norsk-íslenskri síld.
Dreif­ing kol­munna, mak­ríls og norsk-ís­lenskri síld. Kort/​mbl.is

Sam­komu­lag án Íslands?

Heiðrún Lind tek­ur í andsvari sínu und­ir sjón­ar­mið er varða mik­il­vægi sjálf­bærra veiða en vek­ur at­hygli á því að eðli­legt er að spyrja hvað valdi því að ekki hafi tek­ist að semja? Við þessu hafi feng­ist svar í grein tals­manna norskra út­gerðarmanna. „Norðmenn eru ein­fald­lega ekki til­bún­ir til að semja, að því gefnu að fram­kvæmda­stjóri Fiskebåt endurómi af­stöðu norska rík­is­ins.“

Vís­ar hún til þess að Maråk og Ber­fjord segja í grein sinni að „svæðisteng­ing“ sé „eðli­leg for­senda“ skipt­ing­ar veiðiheim­ilda milli strand­ríkj­anna. „Svæðisteng­ing mak­ríls­ins við Nor­eg og Bret­land er mik­il. Megnið af mak­ríln­um er veitt í efna­hagslög­sögu þess­ara tveggja ríkja. Lítið er um mak­ríl í hafsvæði Íslands og eng­inn mak­ríll í hafsvæði Græn­lands og Rúss­lands. Þetta er ástæðan fyr­ir því að þeir veiða mak­ríl á alþjóðlegu hafsvæði og í magni sem er langt um­fram það sem hægt er að rétt­læta út frá mak­ríl í eig­in efna­hagslög­sögu.“

Hvetja þeir „alla samn­ingsaðila, sér­stak­lega Evr­ópu­sam­bandið, Bret­land og Nor­eg, til að ná sam­komu­lagi á næstu vik­um“. Vek­ur at­hygli að í orðum sín­um skilja Norðmenn­irn­ir út und­an Græn­lend­inga, Íslend­inga og Rússa.

Aðferðin gölluð

Svæðisteng­ing get­ur ekki verið eina for­senda skipt­ing­ar veiðiheim­ilda milli ríkja og neita Norðmenn að horf­ast í augu við þá staðreynd, skrif­ar Heiðrún Lind. Úthlut­un á grund­velli svæðisteng­ing­ar fiski­stofna byggi á að meta hlut­fall fiski­stofns inn­an lög­sögu hvers rík­is, vegið með tíma sem hann eyðir á svæði hvers aðila.

„Sum­um kann að finn­ast þetta sann­gjörn og ein­föld nálg­un, en það er ekki raun­in. Svæðisteng­ing huns­ar ein­fald­lega mik­il­væga þætti. Fiski­stofn­ar breyta stöðugt hreyfi­mynstri sínu, meðal ann­ars vegna um­hverf­isáhrifa eins og hækk­andi sjáv­ar­hita. Það er því ómögu­legt að staðsetja fiski­stofna með óyggj­andi vissu og ná­kvæmni og erfitt að leggja mat á og sam­ræma þau gögn sem liggja fyr­ir frá einu tíma­bili til ann­ars.

„Land­fræðileg út­breiðsla fiski­stofns í dag get­ur verið allt önn­ur en hún var fyr­ir 1, 5 eða 10 árum og gef­ur enga vissu um dreif­ingu hans í framtíðinni. Það er líka staðreynd að óvissa og eyður í mæligögn­um leiða til mik­ill­ar óná­kvæmni í áætl­un­um og út­reikn­ing­um. Þess­ar hug­leiðing­ar sýna einn veru­leg­an galla í því að treysta ein­göngu á svæðisteng­ingu, galla sem á ör­ugg­lega eft­ir að ýta und­ir ágrein­ing, bæði nú og í framtíðinni,“ út­skýr­ir hún.

Auk þessa ágalla bend­ir Heiðrún Lind á að svæðisteng­ing taki ekki til­lit til þess hvar fiski­stofn­ar hrygna, vaxa, leita ætis og þyngj­ast. Þannig sé ekki metið hvert fram­lag hvers rík­is er í þágu heil­brigðis stofns­ins og held­ur ekki hve háð ríki eru veiðunum eða hvar veiðar eru hag­kvæm­ast­ar. „Á þetta hef­ur Ísland og fjöldi sér­fræðinga ít­rekað bent.“

Makríllinn er mikilvægur hlekkur í rekstri fleiri útgerða hér á …
Mak­ríll­inn er mik­il­væg­ur hlekk­ur í rekstri fleiri út­gerða hér á landi. Ljós­mynd/​Vinnslu­stöðin

Mak­ríl­veiðar langt um­fram ráðgjöf

Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðið (ICES) lagði til að á síðustu mak­ríl­vertíð yrði ekki veitt meira en 852 þúsund tonn.

Íslensk yf­ir­völd hafa gefið út að hlut­deild Íslands eigi að miðast við 16,5% af ráðgjöf­inni og var ís­lensk­um skip­um út­hlutað veiðiheim­ild­um sem nema rétt rúm­lega 140 þúsund tonn­um.

Fær­ey­ing­ar og Norðmenn juku hins veg­ar þá hlut­deild sem þeir hafa áður talið sig eiga til­kall til og hækkuðu út­gefn­ar veiðiheim­ild­ir til sinna skipa um 55%. Úthlutuðu Fær­ey­ing­ar 167 þúsund tonn­um til sinna skipa og Norðmenn 298 þúsund tonn­um til sinna.

Alls gáfu strand­rík­in út veiðiheim­ild­ir fyr­ir 1.208 þúsund tonn sem er 42% um­fram ráðgjöf.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: