Súrsæt niðurstaða COP26

Alok Sharma, forseti COP26-loftslagsráðstefnuna, hélt aftur af tárum þegar hann …
Alok Sharma, forseti COP26-loftslagsráðstefnuna, hélt aftur af tárum þegar hann upplýsti um að ríkin hefðu komist að sameiginlegri niðurstöðu með loftslagssamning. AFP

COP26 er 26. aðild­ar­ríkjaþing lofts­lags­samn­ings Sam­einuðu þjóðanna sem haldið var í Glasgow dag­ana 1. nóv­em­ber til 13. Nóv­em­ber og stend­ur skamm­stöf­un­in fyr­ir Con­frence of parties. Þangað mættu rúm­lega 20 þúsund full­trú­ar frá 197 aðild­ar­ríkj­um, þar með talið rúm­lega 190 þjóðarleiðtog­ar, ásamt full­trú­um rík­is­stjórna, sér­fræðinga í lofts­lags­mál­um, tals­manna fyr­ir­tækja, fé­laga­sam­taka og svo lengi mætti telja.

Form­leg sendi­nefnd Íslands taldi tæp­lega 26 full­trúa en í hópi þeirra mátti m.a. finna Katrínu Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra, Guðmund Inga Guðbrands­son, um­hverf­is- og auðlindaráðherra, Þór­dísi Kol­brúnu R. Gylfa­dótt­ur at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, ásamt full­trú­um um­hverf­is­stofn­un­ar, veður­stof­unn­ar, land­græðslunn­ar, lofts­lags­ráðs og Orku­stofn­un­ar.

Ráðstefn­an í Glasgow hef­ur verið kölluð upp­gjörs­tími Par­ís­arsátt­mál­ans sem er lög­bund­inn alþjóðleg­ur sátt­máli um lofts­lags­breyt­ing­ar sem var samþykkt­ur á COP21-lofts­lags­ráðstefn­unni í Par­ís 2015. Sátt­mál­inn kveður á um að þjóðir heims vinni sam­an að því að koma í veg fyr­ir að meðal­hita­stig jarðar hækki um 1,5 - 2 gráður miðað við meðal­hita­stigið sem var við upp­haf iðnvæðing­ar. Var þá samþykkt að ríki heims myndu hitt­ast á fimm ára fresti til að meta þann ár­ang­ur sem hefði náðst í lofts­lags­mál­um og end­ur­skoða lands­fram­lög­in (e. Nati­onally determ­ined contri­buti­ons) og gera mark­mið þeirra metnaðarfyllri. Eng­in lofts­lags­ráðstefna fór þó fram í fyrra og frestaðist upp­færsla mark­miða um eitt ár.

Fyr­ir ráðstefn­una í Glasgow í ár voru aðild­ar­rík­in beðin um tvennt. Ann­ars veg­ar að end­ur­skoða og upp­færa fram­lög sín í Par­ís­arsátt­mál­an­um, og hins veg­ar að skila inn framtíðar­sýn um hvernig skuli tryggja kol­efn­is­hlut­leysi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sótti ráðstefnuna.
Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra sótti ráðstefn­una. AFP

Síðasta raun­veru­lega tæki­færið okk­ar

Mik­il­vægt er að rík­in hitt­ist með reglu­legu milli­bili til að upp­færa mark­mið sín um sam­drátt í los­un. Eft­ir því sem magn kol­díoxíðs í and­rúms­loft­inu hækk­ar, þeim um­fangs­meiri breyt­ing­ar þarf til að snúa þró­un­inni við. Ef að kol­díoxíð í and­rúms­loft­inu fer yfir 450 ppm eru tald­ar ein­ung­is 50% lík­ur á að við náum að halda hlýn­un inn­an við tveggja gráðu markið.

Skömmu fyr­ir ráðstefn­una birt­ust skýrsl­ur sem vörpuðu ljósi á afar nei­kvæða þróun í lofts­lags­mál­um. Frá því að Par­ís­arsátt­mál­inn var samþykkt­ur virðast litl­ar sem eng­ar fram­far­ir hafa orðið þrátt fyr­ir lof­orð og yf­ir­lýs­ing­ar þjóðarleiðtoga.

Í skýrslu frá Alþjóðaveður­fræðistofn­un­inni (WMO) kem­ur fram að magn gróður­húsaloft­teg­unda í and­rúms­loft­inu hafi náð nýj­um hæðum á síðastliðnum árum en mæl­ing­ar frá síðasta ári sýndu að magnið hafi farið yfir meðaltal síðustu tíu ára og lít­ur allt út fyr­ir að aukn­ing­in haldi áfram á þessu ári.

Í skýrslu Um­hverfi­stofn­un­ar­inn­ar sem birt­ist nokkr­um dög­um síðar kom fram að skuld­bind­ing­ar þjóða í lands­mark­miðum fyr­ir ráðstefn­una hafi ekki verið ná­lægt því að koma í veg fyr­ir að meðal­hita­stig jarðar hækki um 1,5 gráðu. Nauðsyn­legt væri að minnka út­blást­ur kol­díoxíðs um 55% fyr­ir árið 2030 en skuld­bind­ing­arn­ar fyr­ir ráðstefn­una virt­ust ein­ung­is miða við að draga úr út­blæstri um 7,5%. Með því áfram­haldi má bú­ast við að meðal­hita­stig hækki um 2,7 gráður á næstu árum, sem er langt frá því sem Par­ís­arsátt­mál­inn gerði ráð fyr­ir.

Mikið var því und­ir á ráðstefn­unni í ár og þurftu þjóðarleiðtog­ar og sendi­nefnd­ir að herða tök­in veru­lega á bar­átt­unni. Telja marg­ir að við mun­um aldrei aft­ur fá jafn gott tæki­færi til að bregðast við lofts­lags­vánni.

Mark­mið ráðstefn­unn­ar

Fyr­ir ráðstefn­una voru nokk­ur út­gef­in mark­mið.

Það fyrsta var að tryggja kol­efn­is­hlut­leysi fyr­ir miðja öld­ina og halda mark­miði Par­ís­arsátt­mál­ans um tak­mörk­un hlýn­un­ar við 1,5 gráðu á lífi.  Til að það gæti gerst var ljóst að hraða þyrfti ferl­inu sem fel­ur í sér stöðvun á notk­un kola, draga úr eyðingu skóga, flýta um­skipt­um nýorku­bíla og hvetja til fjár­fest­ing­ar í end­ur­nýj­an­leg­um orku­gjöf­um.

Annað mark­mið var að vernda bæði sam­fé­lög og nátt­úru gegn lofts­lags­áhrif­um, meðal ann­ars með bygg­ingu varna og traustra innviða sem geta staðið af sér áhrif lofts­lags­breyt­inga.

Þriðja mark­miðið fel­ur í sér að tryggja fjár­mögn­un í svo­kallaðan lofts­lags­sjóð þar sem fjár­mála­stofn­an­ir úr einka- og op­in­bera­geir­an­um vinna sam­an að því að safna 100 millj­örðum Banda­ríkjdala á ári hverju fyr­ir þró­un­ar­lönd. Verður þessi pen­ing­ur nýtt­ur til að efla mark­mið eitt og tvö, það er aðstoða þró­un­ar­lönd við að aðlag­ast og verj­ast áhrif­um lofts­lags­breyt­inga, en jafn­framt auðvelda þeim að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda.

Fjórða og síðasta mark­miðið fel­ur í sér sam­vinnu aðild­ar­ríkj­anna að sam­eig­in­legu mark­miði. Krefst meðal ann­ars sam­vinnu við að leggja loka­hönd á reglu­bók Par­ís­arsátt­mál­ans og hraða aðgerðum í bar­átt­unni gegn lofts­lags­vánni.

Mik­il­væg­ar yf­ir­lýs­ing­ar

Ráðstefn­an hófst form­lega þann 1. nóv­em­ber með ávörp­um þjóðarleiðtoga þar sem þeir settu tón­inn fyr­ir ráðstefn­una og sam­mælst var um mik­il­vægi þess að bregðast við þeim aðkallandi vanda er steðjar að jörðinni. Næst tók við samn­ingaviðræður full­trúa ríkj­anna og að lok­um komu ráðherr­ar til að leysa úr tor­leyst­um ágrein­ings­efn­um.

Áður en ráðstefn­unni lauk voru mik­il­væg­ar sjálf­stæðar yf­ir­lýs­ing­ar samþykkt­ar af fjölda landa, sem kveða meðal ann­ars á um skógareyðingu, los­un met­ans og kola­notk­un.

Yfir hundrað ríki, sem sam­an­lagt eiga um 85% af skóg­lendi heims, hafa ritað und­ir yf­ir­lýs­ingu þar sem þau heita því að stöðva og snúa við tapi á skóg­um og land­eyðingu fyr­ir árið 2030. Tölu­verðu fjár­magni hef­ur verið heitið í þetta verk­efni en enn þykir nokkuð óljóst hvernig þessu verður fylgt eft­ir. 

Yfir hundrað ríki hafa skrifað und­ir yf­ir­lýs­ingu sem kveður á um 30% sam­drátt á los­un met­ans til 2030 miðað við los­un 2020. Mark­miðið er sam­eig­in­legt og er því ekki um að ræða mark­mið fyr­ir ein­stök ríki. Þykir þó áhyggju­efni að stórþjóðir á borð við Kína, Rúss­land og Ind­land hafa ekki skrifað und­ir, en þær bera ábyrgð á stór­um hluta út­blást­urs loft­teg­und­ar­inn­ar.

Yfir 40 ríki hafa ritað und­ir yf­ir­lýs­ingu um að víkja frá kola­notk­un en það er talið vera einn stærsti or­saka­vald­ur lofts­lags­breyt­inga. Hétu rík­in því ým­ist að hætta notk­un­inni fyr­ir árið 2040 eða 2050. Þótti já­kvætt að sjá að ríki á borð við Suður Kór­eu, Indó­nes­íu, Víet­nam, Pól­land og Úkraínu sem eru á lista yfir 20 lönd sem nota hvað mest kol í heim­in­um. Hins veg­ar þótti ekki já­kvætt að ríki á borð við Ástr­al­íu, Kína, Jap­an og Ind­land hefðu ákveðið að taka ekki þátt.

Þá voru þó nokk­ur ríki á borð við Banda­rík­in, Kan­ada og Bret­land, sem sáu sér ekki fært um að skrifa und­ir yf­ir­lýs­ing­una um að stöðva kola­notk­un, sem skrifuðu hins veg­ar und­ir aðra yf­ir­lýs­ingu þar sem þau hétu því að hætta að fjár­magna fram­leiðslu jarðefna­eldsneyt­is utan heima­lands síns fyr­ir árs­lok 2022. Verður fjár­mun­um frek­ar varið í að fjár­festa í hreinni orku. 

Ísland skrif­ar und­ir fimm yf­ir­lýs­ing­ar

Alls skrifuðu full­trú­ar Íslands und­ir fimm yf­ir­lýs­ing­ar sem voru utan ramma lofts­lags­samn­ings­ins.

Meðal þeirra voru yf­ir­lýs­ing­arn­ar sem minnst var á hér að ofan er varða sam­drátt í los­un met­ans og stöðvun á skógareyðingu. Til viðbót­ar við þær var einnig skrifað und­ir yf­ir­lýs­ingu um herta sókn í inn­leiðingu raf­bíla og annarra hrein­orku­bíla, í von um að þeir verði 100% af bíla­sölu fyr­ir árið 2035. Þá rituðu full­trú­ar Íslands und­ir yf­ir­lýs­ingu sem styður við hrein orku­skipti á heimsvísu og að lok­um var ritað und­ir yf­ir­lýs­ingu sem kveður á um að draga úr los­un frá sigl­ing­um og stöðva hana með öllu fyr­ir árið 2050.

Sam­eig­in­leg yf­ir­lýs­ing Kín­verja og Banda­ríkja­manna

Örfá­um dög­um fyr­ir lok ráðstefn­unn­ar bár­ust einnig þau tíðindi að Kína og Banda­rík­in hefðu tekið hönd­um sam­an og gefið út sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu þar sem kveðið var á um að þjóðirn­ar ætli að vinna sam­an að metnaðarfyllri mark­miðum til þess að tak­marka hlýn­un við 1,5 gráðu. Þótti þá fyrst og fremst áhuga­vert að horfa til þess hvað Kín­verj­ar ætluðu að gera en fram til þessa höfðu þeir legið und­ir mik­illi gagn­rýni fyr­ir að sýna ekki mik­inn lit í bar­átt­unni gegn lofts­lags­vánni þrátt fyr­ir að menga mest allra ríkja.

Yf­ir­lýs­ing­in er talið mik­il­vægt fram­fara skref en á sama tíma er hún ansi glopp­ótt. Hafa gagn­rýn­end­ur meðal ann­ars bent á að skort­ur sé á aðgerðaráætl­un um hvernig rík­in hygg­ist ætla að standa við sam­drátt í los­un auk þess sem lítið hefði verið minnst á fjár­magn til að fylgja þessu eft­ir.

John Kerry fulltrúi Bandaríkjanna þegar hann kynnti sameiginlega yfirlýsingu þeirra …
John Kerry full­trúi Banda­ríkj­anna þegar hann kynnti sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu þeirra og Kína. AFP

Helstu niður­stöður

Meðal helstu niðurstaðna samn­ings­ins eru að aðild­ar­ríki lofts­lags­samn­ings Sam­einuðu þjóðanna staðfestu all­ar mik­il­vægi þess að halda hækk­un hita­stigs jarðar und­ir 1,5 gráðum. Þá eru ríki beðin um að skila inn metnaðarfyllri mark­miðum í sam­ræmi við mark­mið Par­ís­arsátt­mál­ans fyr­ir árs­lok 2022, í stað 2025 eins og upp­runa­lega var kveðið á um. Frá­gang Reglu­bók Par­ís­arsátt­mál­ans lauk form­lega og út­færsl­ur á reglu­gerðum og fyr­ir­komu­lagi ým­issa ákvæða sem höfðu staðið út af eft­ir lofts­lags­ráðstefn­una í Póllandi árið 2018, meðal ann­ars ákvæðið um kol­efn­ismarkaðinn.

Kveðið var á um að dregið yrði úr notk­un kola og niður­greiðslum á jarðefna­eldsneyti. Hvað varðar fjár­magn, þá var farið fram á að þróuð ríki myndu tvö­falda fram­lög sín til þró­un­ar­ríkja til aðlög­un­ar að áhrif­um lofts­lags­breyt­inga.

Þá kveður loka­ákvörðun lofts­lags­ráðstefn­unn­ar einnig á um að lögð sé áhersla á mál­efni hafs­ins, jökla, líf­fræðilegr­ar fjöl­breytni, og vernd og end­ur­heimt nátt­úru og vist­kerfa. Auk þess sem áhersla var lögð á að gætt verði að rétt­læti, jafn­rétt­is og mann­rétt­ind­um í þeim breyt­ing­um sem við stönd­um frammi fyr­ir. Þá á einnig að auka aðkomu ungs fólks að und­ir­bún­ingi verk­efna og ákv­arðana­töku.

Loka­út­kom­an þótti nokkuð um­deild en fyrstu drög sam­komu­lags­ins höfðu kveðið á um metnaðarfyllri aðgerðir. Mót­mæli stórþjóða höfðu þó dregið úr ýms­um ákvæðum á loka­sprett­in­um sem varð til þess að þau urðu óskýr og jafn­vel út­vötnuð og bit­laus.

Dregið úr notk­un kola

Sú breyt­ing sem olli hvað mest­um von­brigðum var án efa ákvæðið um kola­notk­un. Í fyrstu drög­um voru aðild­ar­rík­in hvött til að hætta notk­un kola og niður­greiðslu jarðefna­eldsneyt­is. Þetta ákvæði þótti afar framúr­stefnu­legt í ljósi þess að í Par­ís­arsátt­mál­an­um var hvergi minnst á kol, olíu, nátt­úrugas eða jarðefna­eldsneyti.

Þegar á hólm­inn var komið reynd­ist þó ákvæðið of þung­bært fyr­ir stórþjóðir á borð við Kína, Ind­land, Sádi-Ar­ab­íu og Suður Afr­íku sem reiða sig að miklu leyti á kol sem orku­gjafa. Eft­ir mikl­ar samn­ingaviðræður fékkst smá­vægi­leg breyt­ing á orðalag­inu samþykkt sem mun þó hafa mikl­ar af­leiðing­ar í för með sér.

Er nú ein­ung­is kveðið á um að dregið verði úr kola­notk­un (e. phase-down) í stað þess að hún verði stöðvuð (e. phase-out). Hef­ur þessi loka­breyt­ing verið gagn­rýnd harðlega og þykir nú ákvæðið frek­ar óljóst og bit­laust. Er þetta tal­inn hafa verið mik­ill ósig­ur fyr­ir um­hverfið og plán­et­una.

Skaðabæt­ur

Þá þótti einnig mik­il von­bgriði að ákvæði um bóta­ábyrgð þróaðra ríkja gagn­vart þró­un­ar­lönd­um hefði ekki hlotið meiri hljóm­grunn.

Þykir nokkuð óum­deilt að þróuð ríki beri mun meiri ábyrgð á þeirri lofts­lags­vá sem við stönd­um frammi fyr­ir. Hins veg­ar hafa þró­un­ar­ríki verið mun ber­skjaldaðri gagn­vart áhrif­um lofts­lags­breyt­ing­anna. Hef­ur því ákvæði um bóta­ábyrgð þróaðra ríkja lengi verið í umræðunni en hingað til ekki hlotið braut­ar­gengi.  

Beiðnir þró­un­ar­ríkja féllu í grýtt­an far­veg en ríki á borð við Banda­rík­in sáu sér ekki hag í því að hleypa þessu kerfi á kopp­inn enda gæti það leitt til þess að hægt væri að heimta millj­arða í skaðabæt­ur frá stórþjóðum sem bera hvað mesta ábyrgð.

Í stað þess var kom­ist að þeirri niður­stöðu að ár­leg­ar viðræður myndu eiga sér stað til árs­ins 2024 til að ræða fyr­ir­komu­lag fjár­mögn­un­ar um ákveðnar aðgerðir. Þykja þessi lof­orð óskýr og óná­kvæm.

Þá tókst held­ur ekki að efna lof­orð um lofts­lags­sjóðinn sem hef­ur verið í deigl­unni und­an­far­in ár. Í hann áttu rík­ari þjóðir heims og fjár­mála­stofn­an­ir að safna 100 millj­örðum banda­ríkja­dala á hverju ári til þró­un­ar­ríkja og átti sjóður­inn að kom­ast á fót árið 2020, sem gerðist þó ekki.

Mörgum þótti niðurstaða ráðstefnunnar misheppnuð og voru ósáttir við markmiðin …
Mörg­um þótti niðurstaða ráðstefn­unn­ar mis­heppnuð og voru ósátt­ir við mark­miðin sem komu þar fram. AFP

Lok­aniðurstaða

Lok­aniðurstaða og mark­mið sam­komu­lags­ins sem aðild­ar­rík­in skrifuðu und­ir duga því ekki til að tak­marka hlýn­un við 1,5 gráðu. Sam­kvæmt út­reikn­ing­um Um­hverf­is­stofn­unn­ar Sam­einuðu þjóðanna stefn­ir nú í að meðal­hita­stig hækki um 2,4 gráðu miðað við þær yf­ir­lýs­ing­ar ríkja sem komu fram á fund­in­um.

Það sem helst stend­ur upp úr er gagn­rýni á rík­ari þjóðir heims sem ekki eru tal­in hafa staðið skil á sínu gagn­vart þró­un­ar­lönd­um, sem eru hvað ber­skjölduðust fyr­ir áhrif­um lofts­lags­breyt­inga. Þrátt fyr­ir það hafa marg­ir sam­mælst um að ráðstefn­an hafi ekki verið mis­heppnuð, öllu held­ur hafi mik­il­vægt skref verið tek­in og að marg­ir já­kvæðir þætt­ir hafi fal­ist í henni.

mbl.is