„Ósköp þakklátur fyrir það að vera tilnefndur“

Birgir Ármannsson gegndi nýverið hlutverki formanns undirbúningskjörbréfanefndar og var þingflokksformaður …
Birgir Ármannsson gegndi nýverið hlutverki formanns undirbúningskjörbréfanefndar og var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta leggst bara ágæt­lega í mig, þingið kýs á miðviku­dag­inn þannig þetta geng­ur nú ekki í gegn fyrr en þá en ég er ósköp þakk­lát­ur fyr­ir það að vera til­nefnd­ur af hálfu míns flokks,“ seg­ir Birg­ir Ármanns­son í sam­tali við mbl.is en fyrr í dag var greint frá því að Birg­ir verði til­nefnd­ur for­seti Alþing­is.

Birg­ir var vara­for­seti þings­ins á ár­un­um 2003-2007 og sat því í for­sæt­is­nefnd og tók virk­an þátt í fund­ar­stjórn á þeim árum. „Síðan var ég vara­for­seti í stuttu milli­bils­ástandi vet­ur­inn 2016-2017,“ seg­ir Birg­ir en hann varð í kjöl­far kosn­ing­anna 2017 þing­flokks­formaður og hef­ur verið það síðan.

Ágæt­is jafn­vægi milli ólíkra flokka

Spurður hvort hann sé ánægður með hinn nýbakaða rík­is­stjórn­arsátt­mála jánk­ar Birg­ir því. „Já já, ég er sátt­ur við þessa niður­stöðu í stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðunum og hlakka til kom­andi kjör­tíma­bils. Þetta er auðvitað plagg sem tek­ur á mjög mörg­um mis­mun­andi þátt­um og ég held að í því sé ágæt­is jafn­vægi milli sjón­ar­miða ólíkra flokka. Ég held að það hafi tek­ist vel að finna slíkt jafn­vægi.“

Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra sagði í viðtali við Rík­is­út­varpið í dag að sam­komu­lag væri milli stjórn­ar­flokk­anna þriggja um að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn til­nefndi for­seta Alþing­is en þingið kýs um það á miðviku­dag­inn. Bjarni sagði í kjöl­farið að Birg­ir nyti mik­ils stuðnings þing­flokks­ins og virðing­ar og trausts annarra flokka á Alþingi. Hann tryði því ekki að nokkuð kæmi í veg fyr­ir að Birg­ir yrði kos­inn.

mbl.is