Mikil tækifæri í ráðuneyti sem er ekki til

Frá vinstri: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar …
Frá vinstri: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason halda á umræddri bók. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er eitt mik­il­væg­asta ráðuneytið. Ég óska ykk­ur velfarnaðar,“ sagði Lilja Al­freðsdótt­ir, frá­far­andi mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, eft­ir að hún af­henti þeim Áslaugu Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur og Ásmundi Ein­ari Daðasyni lykl­ana að mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­inu.

Þau Áslaug Arna og Ein­ar Daði fengu að gjöf bolla sem á stóð „Það er list að kenna“, auk þess sem þau fengu af­henta í sam­ein­ingu bók sem fyrr­ver­andi mennta­málaráðherr­ar hafa ritað um hvað er gott að gera á fyrstu dög­um í embætti.

Fór í dóms­málaráðuneytið í sprett­hlaupi

Áslaug Arna tek­ur núna við sem vís­inda-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra og seg­ir starfið leggj­ast ótrú­lega vel í sig. Mik­il tæki­færi fel­ist í að taka við ráðuneyti sem er ekki til en það sé búið til í kring­um tæki­færi framtíðar­inn­ar. Þetta hafi verið gert á hinum Norður­lönd­un­um og að skýr sýn sé til staðar í stjórn­arsátta­mál­an­um.

„Ég fæ að móta það eig­in­lega al­veg frá grunni og í því fel­ast tæki­færi sem ekki marg­ir hafa fengið og það finnst mér spenn­andi,“ seg­ir Áslaug Arna í sam­tali við blaðamann. Hún bæt­ir við að mest spenn­andi verði að móta sam­spil nýrra þátta og „leyfa þess­um kröft­um að vinna sam­an og sjá hvort við get­um ekki leyst eitt­hvað meira úr læðingi“.

Spurð seg­ist hún kveðja dóms­málaráðuneytið með söknuði. Þangað hafi hún farið inn á „svo­litlu sprett­hlaupi“ þar sem hún sá fyr­ir sér að vera í tvö ár. „Ég gerði eins mikið og ég mögu­lega gat til að hafa góð áhrif og gera mik­il­væg­ar breyt­ing­ar á þeim tíma. Ég er ótrú­lega sátt við þann tíma,“ seg­ir hún en kveðst vita­skuld sakna góðs sam­starfs­fólks.

Vill vinna mjög náið og þétt með öll­um

Ásmund­ur Ein­ar seg­ir gríðarlega spenn­andi að taka við sem mennta- og barna­málaráðherra. Hann mun ann­ast mennta­mál barna til 18 ára ald­urs en einnig flytj­ast í ráðuneytið barna­mál úr fé­lags­málaráðuneyt­inu, þar sem hann var ráðherra, og úr öðrum ráðuneyt­um. „Það eru gríðarleg sókn­ar­færi í því að samþætta þetta tvennt, ann­ars veg­ar mennta­kerfið og hins veg­ar þjón­usta við börn,“ seg­ir hann og nefn­ir einnig mik­il­vægi íþrótta- og æsku­lýðsmá­la.

Spurður hvort hann hafi lagt mikla áherslu að halda áfram að vinna í mál­efn­um barna seg­ist hann hafa flutt sig úr Norðvest­ur­kjör­dæmi yfir til Reykja­vík­ur vegna þess að hann langaði að vinna áfram að þeim breyt­ing­um sem hafa verið unn­ar í þeim mála­flokki. Hann var kjör­inn á þing í Reykja­vík norður og fékk í fram­hald­inu að halda áfram með mál­efni barna. „Það er verið að búa til gríðarlega öfl­ugt barn­aráðuneyti, hvort sem þú horf­ir á æsku­lýðsmá­l­in, mennt­un­ar­mál­in eða barna­mál­in sem eru að koma frá öðrum ráðuneyt­um,“ seg­ir Ásmund­ur og nefn­ir að næsta verk­efnið sé að klára flutn­ing­inn á barna­mál­un­um yfir í ráðuneytið. Það þurfi að ger­ast frek­ar hratt.

Í fram­hald­inu ætl­ar hann að hitta hin ýmsu hags­muna­sam­tök og fara yfir stöðu mála.

„Ég hef ein­sett mér það og gerði það í barna­mál­un­um að vinna mjög náið og þétt með öll­um og ég hlakka til þess,“ seg­ir hann og kveðst taka við góðu búi frá frá­far­andi mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina