Hluturinn í Íslandsbanka verði seldur á næstu tveimur árum

Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir aðeignarhlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka verði seldur að fullu á næstu tveimur árum.

Fram kemur, að sala á 35% hlut ríkisins í Íslandsbanka árið 2021 fyrir 55,3 milljarða kr. og fyrirhuguð frekari sala á árinu 2022 sé mikilvægur þáttur í virkri stýringu á efnahag ríkisins.

„Með sölunni er hægt að auka sjóðstreymi til ríkisins, minnka lánsfjárþörf og auka rými til fjárfestinga í samfélagslega arðbærum verkefnum þrátt fyrir hallarekstur. Eftir söluna 2021 á ríkið 65% hlut í Íslandsbanka og er stefnt að því að selja þann hlut að fullu á árunum 2022 og 2023 ef markaðsaðstæður verða ákjósanlegar,“ segir í frumvarpinu.

Þá kemur fram, að á næsta ári sé horft til þess að hægt verði að selja um helming útistandandi hlutar ríkisins á virði sem væri nálægt markaðsvirði miðað við núverandi gengi, eða um 75 milljarða.

Fjárlagafrumvarpið.

mbl.is