Katrín vill ekki hverfa til ársins 2007

Katrín hóf ræðuna á því að segja að ríkisstjórnin hafi …
Katrín hóf ræðuna á því að segja að ríkisstjórnin hafi verið mynduð á breiðum grunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Ekki myndi ég vilja skipta á Íslandi dags­ins í dag og Íslandi árs­ins 2007 þegar ég horfi á stjórn­kerfi, at­vinnu­líf og sam­fé­lag,“ sagði Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld, þegar hún fjallaði um þær breyt­ing­ar sem hefðu átt sér stað á ís­lensku sam­fé­lagi sl. 15 ár.

Í ræðu sinni vék Katrín að því að það væru for­rétt­indi að starfa í stjórn­mál­um, en hún hef­ur nú setið á þingi í tæp 15 ár.

Ánægju­legt að sjá and­stæða hópa sam­ein­ast um að feta ekki aft­ur sömu braut

„Á þeim tíma hef­ur Ísland gengið í gegn­um hrun og end­ur­reisn, ólík­ar rík­is­stjórn­ir, sveifl­ur í stjórn­mál­um fyr­ir utan ýmis ut­anaðkom­andi áföll, og er þar heims­far­ald­ur­inn nær­tækt dæmi. Íslenskt sam­fé­lag hef­ur breyst og þró­ast á þess­um tíma og þó að manni finn­ist stund­um miða hægt er það nú svo að okk­ur hef­ur miðað áfram á flest­um sviðum eins og ný­leg­ar rann­sókn­ir stjórn­mála­fræðinga hafa m.a. dregið fram. Ekki myndi ég vilja skipta á Íslandi dags­ins í dag og Íslandi árs­ins 2007, en þá var ég kjör­in á þing, þegar ég horfi á stjórn­kerfi, at­vinnu­líf og sam­fé­lag. Við geng­um í gegn­um erfiða tíma eft­ir hrun, dróg­um af þeim lær­dóm og það urðu raun­veru­leg­ar breyt­ing­ar á ýms­um sviðum eins og fram kom í skýrslu þeirri sem ég lagði fyr­ir Alþingi í fyrra. Mér hef­ur fund­ist sér­lega ánægju­legt hve ólík­ir og jafn­vel and­stæðir hóp­ar hafa samt náð að sam­ein­ast um að feta ekki sömu braut aft­ur,“ sagði Katrín.

Hún hóf ræðuna á því að segja að rík­is­stjórn­in hafi verið mynduð á breiðum grunni og hún kveðst sann­færð um, þegar horft er til þeirra verk­efna sem bíði henn­ar, þá sé breidd henn­ar kost­ur og geti jafn­vel ráðið úr­slit­um þegar komi að því að skapa sam­hljóm með þjóðinni þegar leysa þurfi úr stór­um og erfiðum verk­efn­um.

Bjart­ari framtíðar­horf­ur en áður

Hún benti á að at­vinnu­ástandið hafi batnað hratt og horf­ur til framtíðar séu bjart­ari en áður. „Þótt óviss­an um fram­vindu far­ald­urs­ins sé áfram tals­verð höf­um við lært æ bet­ur að um­gang­ast þetta ástand, þökk sé sam­stöðu þjóðar­inn­ar og skiln­ingi á því mark­miði stjórn­valda að tak­marka skaðann.“

Katrín seg­ir að rík­is­stjórn­in muni standa vörð um al­mannaþjón­ust­una og leggja áherslu á að skatt­kerfið fjár­magni sam­neysl­una, jafni tekj­ur í sam­fé­lag­inu og styðji við mark­mið stjórn­valda í lofts­lags­mál­um.

Þurfa að vinna gegn því að samn­inga séu laus­ir mánuðum sam­an

Hún seg­ir einnig að rík­is­stjórn­in leggi áherslu á sam­ráð við aðila vinnu­markaðar­ins, m.a. á vett­vangi þjóðhags­ráðs, og muni vinna að því að sam­spil pen­inga­stefnu, rík­is­fjár­mála og ákv­arðana á vinnu­markaði stuðli áfram að því að bæta lífs­kjör. „Við þurf­um að vinna gegn því að samn­ing­ar séu iðulega laus­ir mánuðum sam­an og ekki sé sest að samn­inga­borðinu fyrr en samn­ing­ar losna og bæta þannig vinnu­brögð á vinnu­markaði,“ sagði for­sæt­is­ráðherra.

Katrín fór um víðan völl, en fjallaði einnig um mik­il­vægi öfl­ugr­ar heil­brigðisþjón­ustu sem væri rík­is­stjórn­inni of­ar­lega í huga eft­ir und­an­far­in miss­eri.

Fag­mennska og fum­leysi ein­kennt skipu­lag bólu­setn­inga

„Marga lær­dóma verður hægt að draga af far­aldr­in­um – fag­mennska og fum­leysi hef­ur ein­kennt skipu­lag bólu­setn­inga hjá heilsu­gæslu og heil­brigðis­stofn­un­um, upp­lýs­inga­gjöf land­lækn­is, sótt­varna­lækn­is og al­manna­varna hef­ur tryggt ábyrga um­fjöll­un byggða á þekk­ingu. Raðgrein­ing­ar Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar eru mik­il­vægt fram­lag til þekk­ing­ar heims­byggðar­inn­ar á út­breiðslu veirunn­ar. Ég vil, herra for­seti, nota þetta tæki­færi til að ít­reka þakk­ir mín­ar til allra þeirra sem hafa staðið í fram­línu bar­átt­unn­ar við veiruna nú í hátt á annað ár.“

Hún tók fram, að jafnt aðgengi að heil­brigðisþjón­ustu hefði verið grund­vall­ar­atriði í ár­angri rík­is­stjórn­ar­inn­ar í heims­far­aldri. Rík­is­stjórn­in muni áfram leggja áherslu á að draga úr kostnaði sjúk­linga og styrkja stöðu og hlut­verk Land­spít­al­ans.

Rík­is­stjórn­in mun ekki gefa út leyfi til olíu­leit­ar

Katrín vék einnig orðum að lofts­lags­vánni, sem hún seg­ir að sé stærsta áskor­un sam­tím­ans. „Ísland á að vera fremst meðal jafn­ingja í lofts­lags­mál­um, standa fast við skuld­bind­ing­ar okk­ar gagn­vart Par­ís­ar­samn­ingn­um og gott bet­ur en það. Við eig­um að byggja aðgerðir okk­ar og stefnu­mót­un á vís­inda­legri þekk­ingu og fé­lags­legu rétt­læti þar sem eng­inn er skil­inn eft­ir.“

Hún seg­ir að all­ar aðgerðir stjórn­valda og áætlan­ir miði að því marki að Ísland verði lág­kol­efn­is­hag­kerfi sem nái kol­efn­is­hlut­leysi ekki síðar en árið 2040. Ný rík­is­stjórn hafi tekið þá ákvörðun að setja sjálf­stætt lands­mark­mið um 55% sam­drátt í los­un á beinni ábyrgð Íslands og skýr, áfanga­skipt mark­mið um sam­drátt í los­un í ein­staka geir­um í sam­starfi við at­vinnu­lífið, sveit­ar­fé­lög­in og stofn­an­ir sam­fé­lags­ins. Það eigi ekki að koma nein­um á óvart að rík­is­stjórn­in muni ekki gefa út leyfi til olíu­leit­ar í efna­hagslög­sögu Íslands, enda væri slík vinnsla í hróp­andi ósam­ræmi við stefnu henn­ar sem hvíl­ir á hrein­um og end­ur­nýj­an­leg­um orku­gjöf­um. Þá verði stofnaður þjóðgarður á friðlýst­um svæðum og jökl­um á há­lend­inu í sam­vinnu við heima­menn og lokið verði við þriðja áfanga ramm­a­áætl­un­ar.

Katrín nefndi einnig að hún hefði skipað aðgerðahóp um launa­jafn­rétti og jafn­rétti á vinnu­markaði. Breyt­ing­ar á vinnu­tíma vakta­vinnu­fólks hafi verið mik­il­vægt skref í þá átt að koma til móts við stór­ar kvenna­stétt­ir.

Þá verði bar­átt­an gegn kyn­bundnu og kyn­ferðis­legu of­beldi og áreitni áfram for­gangs­mál, for­varna­áætl­un verði fylgt eft­ir af krafti og frum­varp til að bæta rétt­ar­stöðu brotaþola verði lagt fram aft­ur. Þá verði unnið að sér­stakri aðgerðaáætl­un í mál­efn­um hinseg­in fólks.

Taki tíma að breyta stjórn­ar­skránni

Katín vék einnig orðum að breyt­ing­um á stjórn­ar­skrá, en hún lagði til fyr­ir fjór­um árum áætl­un hvernig vinna mætti að breyt­ing­um á stjórn­ar­skránni á tveim­ur kjör­tíma­bil­um.

„Ég mun halda áfram und­ir­bún­ings­vinnu við breyt­ing­ar sam­kvæmt þeirri áætl­un sem þá lögð var fram og síðar á kjör­tíma­bil­inu mun ég ræða við for­menn flokka um það hvort  vilji er til þess að eiga áfram­hald­andi sam­ráð um til­lög­ur til breyt­inga. Mín afstaða er hér eft­ir sem hingað sú að afar mik­il­vægt sé að Alþingi geri breyt­ingu á stjórn­ar­skránni þannig að ný ákvæði, ekki síst um auðlind­ir í þjóðar­eign og um­hverf­is- og nátt­úru­vernd öðlist gildi.“

Katrín seg­ir að það sé eðli­legt að það taki tíma að breyta stjórn­ar­skránni og þó að hún hefði svo sann­ar­lega viljað að Alþingi hefði kom­ist lengra á síðasta kjör­tíma­bili, þá skipt­ir mestu máli að við vönd­um okk­ur og náum niður­stöðu sem sátt ríki um.

For­sæt­is­ráðherra lauk ræðu sinni á því að segja að það sé skylda allra þing­manna að vinna allt sem þeir geti til að efla og bæta hag al­menn­ings.

„Við vilj­um tryggja jöfnuð og rétt­indi allra, við sitj­um hér á þingi fyr­ir hönd allra lands­manna. Lát­um það end­ur­spegl­ast í störf­um okk­ar á nýju þingi og nýju kjör­tíma­bili.“

mbl.is