Víkingur AK kom með fyrsta loðnufarm sinn til Vopnafjarðar klukkan átta í gærmorgun og var því fyrr með sín 2.100 tonn til hafnar en Bjarni Ólafsson AK sem landaði sínum 1.600 tonnum í Neskaupstað rétt fyrir hádegi í gær.
Fram kemur á vef Brims, sem gerir Víking út, að aflinn hafi fengist í níu holum á svipuðu svæði og önnur skip hafa verið að ná loðnunni að undanförnu, um 45 sjómílur norður af Melrakkasléttu.
Skip Brims hafa verið á miðunum að undanförnu og að því er 200 mílur komast næst kom Venus NS til hafnar á Vopnafirði í nótt með loðnuafla en Svanur RE er enn á miðunum og mun halda til Vopnafjarðar á næstunni. Úthlutaður loðnukvóti Brims er 113 þúsund tonn og hafa skipin í nógu að snúast.