Kap dregið til Eyjafjarðar eftir vélarbilun

Kap VE við bryggju í Eyjum.
Kap VE við bryggju í Eyjum. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Ísleifur VE-63 er nú á leið inn Eyjafjörð með Kap VE-4 í togi. Skipin sem bæði eru gerð út af Vinnslustöðinni í Vestmananeyjum hafa verið á loðnuveiðum á miðunum norður af landinu ásamt öðrum loðnuskipum en eru nú stödd skammt frá Hrólfsskeri í norðanverðum firðinum.

Áhöfnin á Kap lenti í því óláni að aðalvél skipsins bilaði í gær. Ísleifur var á þeirri stundu ekki langt undan og tók Kap í tog og haldið til Eyjafjarðar. Dráttarbáturinn Seifur EA er á leið til móts við skipin og mun hann koma Kap til hafnar á Akureyri þar sem hafist verður handa við að lagfæra vélina.

„Veður var skaplegt, allt gekk vel fyrir sig og engin hætta á ferðum,“ segir í færslu á vef útgerðarinnar.

Ekki vitað hvers eðlis bilunin er

„Við vorum að toga og ætluðum að fara að hífa þegar boð bárust frá vélstjórum um að vélarbilun. Okkur tókst að ná hlerum um borð með afli aðalvélarinnar en notuðum svo ljósavélar til að dæla aflanum um borð, um 200 tonnum af loðnu, og ná síðan veiðarfærunum,“ segir Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Kap, í færslunni.

„Ég hafði strax samband við Ísleif og áhöfn hans var þá nýbúnin að hífa. Vel gekk að koma taug á milli skipanna og engin dramatík var í kringum þetta. Við vitum ekki hvers eðlis bilunin er en vonandi tekur viðgerð ekki langan tíma. Það vitum við samt ekki fyrr en málið verður kannað betur á Akureyri,“ útskýrir hann.

Ísleifur VE-63 er kominn til Eyjafjarðar með Kap VE-4 í …
Ísleifur VE-63 er kominn til Eyjafjarðar með Kap VE-4 í togi. mbl.is/RAX
mbl.is