Loðnugangan á svipuðum tíma og á árum áður

Heimaey VE kom með fyrsta loðnufarm vertíðarinnar.
Heimaey VE kom með fyrsta loðnufarm vertíðarinnar. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Hátt á annan tug uppsjávarskipa var á loðnumiðunum í landgrunnskantinum norður af Langanesi í gær. Nokkur þeirra eru búin að landa einu sinni, en önnur eru langt komin með að fylla í fyrsta túrnum. Afli var dræmur í fyrrinótt, en „þetta er eitthvað byssulegra í dag,“ sagði útgerðarmaður sem rætt var við um miðjan dag gær og átti þá við að útlitið væri betra. Annar sagði að einkum hefði verið um dagveiði að ræða og afli verið þokkalegur.

Eftir ætisgöngur einkum í Grænlandshafi kemur loðnan á þriðja ári upp að landgrunnskantinum við eða vestur af Kolbeinsey í nóvember eða desember í hrygningargöngu sinni. Hún gengur síðan austur á bóginn og suður með Austfjörðum og er þá oft á 30 metra dýpi niður í um 250 metra. Fremsta gangan er gjarnan þétt, en síðan geta komið „seinni púlsar“ eins og Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, orðar það.

Sóttu fróðleik í afladagbækur

„Í fyrrahaust kom loðnan að Kolbeinseyjarhrygg í nóvember og það fannst okkur snemmt miðað við árin á undan, en hafa verður í huga að þau ár var hún í ákveðnum aðstæðum,“ segir Birkir. „Breytilegar aðstæður í hafinu og stærð árganga getur haft áhrif og eflaust margt fleira.

Skoðun á framvindu hrygningargöngunnar út frá afladagbókum sýndi okkur að á árum áður var loðnan fyrr á ferðinni inn á landgrunnið heldur en síðustu ár. Síðasta vetur varð breyting á og hún var fyrr á ferðinni. Miðað við hvar flotinn hefur verið að veiðum síðustu daga virðist gangan vera á svipuðum tíma og á síðustu vertíð.“

Loðnuskip í röð við landgrunnskantinn norður af Langanesi. Afli hefur …
Loðnuskip í röð við landgrunnskantinn norður af Langanesi. Afli hefur verið þokkalegur síðustu daga. Skjáskot/Fishfacts

Alltaf á svipuðum tíma til hrygningar

Loðnan fylgir landgrunnsbrúninni og strandstraumurinn við landið og Austur-Íslandsstraumurinn létta henni ferðalagið. Þegar loðnan kemur að hitaskilum fyrir Suðausturlandi dokar hún oft við áður en hún tekur strikið vestur með Suðurlandi á hrygningarstöðvarnar.

„Þegar loðnan kemur að hitaskilunum verður hún oft óútreiknanleg, stundum heldur hún kyrru fyrir á þessu svokallað biðsvæði, stundum gengur hún mjög djúpt eða þá grunnt og hratt með landinu. Hvort sem loðnan kemur seint eða snemma upp að Norðurlandinu og hvernig sem hún hagar göngunni þá virðist hún yfirleitt að lokum koma á hrygningarstöðvarnar á svipuðum tíma.“

Hefðbundinn loðnuleiðangur eftir áramót

Aðspurður hvenær verði farið í hefðbundinn loðnuleiðangur eftir áramót segir Birkir að það liggi ekki endanlega fyrir. Vel verði fylgst með gönguhraða loðnunnar og veiðiskipunum og áhersla lögð á að ná góðri mælingu áður en loðnan komi í hlýja sjóinn fyrir sunnan land.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: