Hinn 59 ára gamli leikstjóri Baz Luhrmann er þekktur fyrir að vera fyrir aftan myndavélina en nú er það andlit hans sem vekur meiri athygli en leikstjórn hans. Luhrman sem er meðal annars frægur fyrir að leikstýra myndum á borð við Romeo + Juliet og Moulin Rouge! virðist hafa farið heldur geyst í fegrunaraðgerðir síðustu ár.
Luhrman hefur vakið athygli fyrir unglegt útlit sitt á rauða dreglinum að undanförnu en hann er að kynna nýja mynd um Elvis. Ástralski leikstjórinn virðist vera næstum því hrukkulaus á nýjustu myndunum. Hann ber þó grátt hárið stoltur.
Fram kemur á vef Daily Mail að húð hans þyki glansa mikið auk þess kinnbeinin hans eru meira áberandi en áður. Þykir Luhrman frekar ólíkur þeim manni sem skaust upp á stjörnuhimininn á tíunda áratug síðustu aldar. Yngri útgáfan var með náttúrulegri línur og húðin var eðlilegri. Hann virðist bara hafa yngst ef eitthvað er.