Svona fer María að því að vera sykurlaus um jólin

María Krista Hreiðarsdóttir heldur sykurlaus jól.
María Krista Hreiðarsdóttir heldur sykurlaus jól.

María Krista Hreiðarsdóttir, hönnuður og matgæðingur, rifjar upp jólaminningar úr æsku, segir frá sínum jólahefðum og deilir með okkur girnilegri uppskrift að íshring. Hún sagði frá þessu í Jólablaði Nettó. 

„Ég er mikið „jólabarn“, eða jólamamma og -amma núna. Ég elska að skreyta og setja jólaljós sem víðast,“ segir María Krista sem framleiðir gjafavöru ásamt eiginmanni sínum, Berki Jónssyni, undir merkinu kristadesign.is og heldur úti matarblogginu mariakrista.com, með áherslu á kolvetnissnauðar uppskriftir. Krista tók allan sykur út úr sínu mataræði fyrir átta árum síðan og líkar ketó-lífsstíllinn vel.

„Ég baka ekki mikið af smákökum en ég geri mínar sykurlausu sörur nokkuð tímanlega og á í frysti. Ég reyni svo að vera búin að skreyta allt mjög snemma því ég hef yfirleitt haldið jólasaumaklúbbinn í vinkonuhópnum mínum,“ útskýrir Krista þegar hún er spurð út í jólaundirbúninginn.

„Það má alls ekki vanta jólatré og ég mun eflaust alltaf tildra því upp þótt að börnin séu flest flutt að heiman. Aðventukransinn skreyti ég fyrir hver jól, jafnvel fleiri en einn. Jólaljós og stjörnur í gluggum eru svo eiginlega nauðsyn.“

Það sem skiptir Kristu mestu máli á þessum árstíma er samvera með fjölskyldunni.

„Laufabrauðsgerðin er ómissandi en þrátt fyrir að ég borði ekki laufabrauð þá er alltaf gaman að hitta föðurfólkið. Dagurinn snýst jú um að skera og steikja laufabrauð en ekki síður að borða saman og allir koma með eitthvað spennandi á drekkhlaðið Pálínu-hlaðborð. Ekki má gleyma jólakvöldi Fríkirkjunnar sem við systur og frænkur höfum mætt reglulega á en það kveikir ekkert meira á jólaandanum en þessi jólastund.“

Krista hlakkar til þess að halda jólin heima hjá dóttur sinni í fyrsta skipti. Aðspurð út í matarhefðir á aðfangadag segir hún að þær hafi breyst.

„Ég borðaði alltaf hamborgarhrygg með öllu tilheyrandi en síðustu árin höfum við valið að elda kalkúnaskip sem hentar öllum. Ég útbý ægilega góða graskersmús, sykurlaust brúnað rauðkál, rósakál með beikoni og geggjaða sveppasósu sem allir elska.“

Hún hvetur fólk sem vill prófa lágkolvetnamataræði um jólin að prófa sig áfram með girnilegar uppskriftir. „Á blogginu mínu er ég til dæmis með uppskrift að kolvetnasnauðri Wellingston-steik, kalkúni og allskonar meðlæti. Þar má líka finna hangikjöt og uppstúf án kolvetna og margt fleira sem kemur fyllilega í staðinn fyrir gömlu uppskriftirnar.“ 

Íshringur með piparkökum og karamellum

PIPARKÖKUMYLSNA

50 g smjör

90 g möndlumjöl

40 g Sukrin Gold

1/2 tsk. negull

1 tsk. kanill

1/2 tsk. engifer

1/4 tsk. múskat

1/2 tsk. gróft salt

1 tsk. kakó

Bræðið smjör og sætu saman, blandið síðan þurrefnum saman við og hitið allt innihaldið í pottinum, dreifið úr því á sílikonmottu eða í form og bakið í 10 mín á 180°C til að gera mylsnuna stökka.

Takið úr ofninum og látið kólna og stífna. Brjótið niður í bita og geymið þar til ísinn er settur saman. Gott er að nota um það bil helminginn af mylsnunni í einn skammt af ís.

KARAMELLA

100 g sykurlaust Sukrin Gold síróp

75 g Sukrin Gold

40 g smjör

140 g rjómi, laktósafrír

1 tsk. vanilludropar

1/2 tsk. sítrónusafi

1/3 tsk. salt

Hitið smjör og síróp/sætu saman í potti þar til fer að bulla, bætið þá rjómanum við ásamt vanillu, sítrónu og salti. Látið sjóða í 30 mín. á vægum hita.

Þegar karamellan festist á teskeið og hægt er að dýfa henni í kalt vatn þá er hún fullelduð. Ef ekki þá hitið þið áfram og látið hana þykkna meira.

Hellið næst karamellunni í form (gott er að nota sílikonform) og kælið. Skerið í smáa bita og notið um 1/2-1 dl í ísinn ykkar.

ÍSHRINGUR

40 g Sukrin Gold síróp

40 g Sukrin Gold sæta eða Nicks 1:1 sæta sem er blanda af Xylitol og Erythritol. Það kemur vel út og frýs ekki eins mikið.

4 eggjarauður (1 dl), fást í brúsa frá Nesbú

1 tsk. vanilludropar

250 ml laktósafrír rjómi

Þeytið sætu, eggjarauður, vanillu og síróp í dágóða stund eða þar til blandan er létt og ljós. Leitist við að hafa eggjakremið þykkt.

Léttþeytið rjómann í sér skál og blandið síðan varlega við eggjakremið. Bætið piparkökumylsnu og karmellukurlinu varlega saman við. Ágætt er að nota um helming af mylsnunni í einn skammt af ís.

Hellið blöndunni í sílikonhringform og frystið í nokkra klukkutíma.

Fallegt er að skilja eftir hluta af piparkökumylsnu og karamellum til skreyta ísinn þegar hann er borinn fram.

mbl.is