Hafrannsóknastofnun leggur til að humarveiðar verði ekki heimilaðar næstu tvö ár, það er árin 2022 og 2023.
Í tilkynningu segir að þetta sé gert í samræmi við varúðarsjónarmið.
„Hafrannsóknastofnun leggur jafnframt til að veiðar með fiskibotnvörpu verði áfram bannaðar á afmörkuðum svæðum í Breiðamerkurdjúpi, Hornafjarðardjúpi og Lónsdjúpi til verndar humri,“ segir í tilkynningunni.
Bent er á að afli á sóknareiningu á þessu ári hafi verið sá minnsti frá upphafi og hafi lækkað samfellt frá hámarkinu árið 2007.
„Stofnstærð humars í stofnmælingunni 2021 hefur lækkað um 27% frá árinu 2016, en stofnmæling með núverandi fyrirkomulagi talninga á humarholum hófst þegar stofninn var þegar í mikilli lægð.“
Þéttleiki humarholna við Ísland árið 2021 var metinn 0,066 holur á hvern fermetra, sem er með því lægsta sem þekkist meðal þeirra humarstofna sem Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) veitir ráðgjöf fyrir.
„Fyrirliggjandi gögn benda til að nýliðun sé í sögulegu lágmarki og að árgangar frá 2005 séu mjög litlir. Verði ekki breyting þar á má búast við áframhaldandi minnkun stofnsins.“