Sigríður og Halldór giftu sig og hafa svipaðar jólahefðir

Sigríður Hjálmarsdóttir og Halldór Halldórsson gengu í hjónaband í sumar.
Sigríður Hjálmarsdóttir og Halldór Halldórsson gengu í hjónaband í sumar.

Sigríður Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju segist seint myndu vinna einhverja jólaskreytingakeppni en hún nýtur jólanna og aðventunnar. Í sumar gekk hún að eiga Halldór Halldórsson og eru þau samstiga þegar kemur að jólahefðum. 

Ég er svona jólabarn sem er meira fyrir að njóta en skreyta. Fyrir mér er aðventan og jólin tími samveru og gleði með góðri slökun að auki. Þegar ég var barn gat ég setið tímunum saman og búið til músastiga og fleira til að hengja upp í herberginu mínu, það var algjörlega allt ofhlaðið af kreppappír í hinum ýmsu formum. Eftir því sem árin hafa liðið er ég komin meira á þá línu að minna sé meira. Það á bæði við um jólaskraut og bakstur. Mínar áherslur felast í því að finna eitthvað fallegt til að gefa mínum nánustu og eiga með þeim góðar stundir,“ segir Sigríður en kirkjan hefur í gegnum tíðina verið stór þáttur í öllum hennar jólaundirbúningi. Faðir hennar er Hjálmar Jónsson fyrrverandi dómkirkjuprestur og snerist líf fjölskyldunnar því mikið um kirkjuna.

Vakti fram á nótt við lestur

„Ég ólst upp á Sauðárkróki og þar áttum við hinar ýmsu hefðir í kringum jólin. Til dæmis fórum við gjarnan ásamt fleirum að Hólum í Hjaltadal til að velja okkur jólatré en þar bjuggu tveir bræður mömmu á þeim tíma. Það var svo gaman að labba í snjónum í skóginum, skima yfir trén og finna rétta tréð fyrir heimilið okkar. Hver hafði sína skoðun á því eins og gengur en alltaf komumst við að góðri niðurstöðu. Ég fékk alltaf nokkrar bækur í jólagjöf sem var heppilegt því ég las gjarnan allt sem ég komst yfir. Að kvöldi aðfangadags eftir matinn, pakkana og samveruna með fjölskyldunni vakti ég oftar en ekki fram undir morgun með bók og mandarínur. Ég á enn í dag erfitt með að leggja frá mér góðar bækur.

Það er ekki hægt að nefna jólin mín án þess að segja frá því hvað það var mikið spilað. Við spiluðum ýmist borðspil eða á spil megnið af jólafríinu. Bæði við fjölskyldan og svo vinir okkar systkina. Það var oft mjög fjörugt á jólunum á æskuheimilinu mínu.“

Heims um ból hringir inn jólin

Sigríður er alin upp við það að mæta í aftansöng í kirkjunni klukkan 18.00 á aðfangadag og komast í raunverulegt jólaskap þegar Heims um ból ómar um kirkjuna í lokin.

„Eftir matinn, pakkana og eftirréttinn höfðum við þann sið að fara öll saman á sjúkrahúsið og dvalarheimilið á Króknum til að heimsækja það fólk sem gat ekki verið annars staðar vegna heilsu sinnar eða aldurs. Mér þóttu þessar heimsóknir mjög dýrmætar og gefandi því fólkið var svo þakklátt fyrir þær og tók svo vel á móti okkur. Eitt árið bauð pabbi okkur að vera eftir heima, enda skildi hann alveg ef við vildum frekar slappa af. Ekkert okkar varð hins vegar eftir. Þetta var hluti af okkar aðfangadegi.

Raunar hef ég bara tvisvar sinnum sleppt því að fara í kirkju klukkan 18 á aðfangadag. Í annað skiptið var pabbi á þingi og við ákváðum að prófa að vera heima og hlusta á messuna í útvarpinu. Við vorum öll hálfvandræðaleg yfir þessu og kunnum eiginlega ekki við að byrja að borða klukkan sex um leið og messan var að byrja. Í hitt skiptið var ég erlendis en hlustaði þar á messuna. Það voru líklega minnst jólalegu jólin sem ég hef átt en það var samt skemmtilegt að sjá jólasveininn mæta á úlfalda inn í hótelgarðinn,“ segir hún og þegar hún er spurð að því hvernig jólin hafi breyst eftir að hún varð fullorðin segir hún að sú breyting hafi ekki verið mikil.

Eftirminnilegt brúðkaup

Sigríður og Halldór gengu í heilagt hjónaband síðasta sumar. Hún segir að dagurinn hafi verið einstakur.

„Upphaflega höfðum við séð fyrir okkur að þetta yrði bara fámennt og jafnvel bara heima. Þegar við fórum að hugsa málið fyrir alvöru þá var auðvitað augljóst að við myndum gifta okkur í Hallgrímskirkju. Pabbi var í splunkunýju hlutverki sem svaramaðurinn minn en fram til þessa hefur hann verið í hlutverki prestsins í athöfnum innan fjölskyldunnar. Tilfinningin þegar kirkjudyrnar opnuðust og Björn Steinar lék brúðarmarsinn var hálfyfirþyrmandi en alveg stórkostleg. Ég hef hvergi heyrt brúðarmarsinn eins magnaðan og á orgelinu í Hallgrímskirkju og þegar ég leit upp sá ég allt fólkið okkar í kirkjunni. Tilvonandi eiginmaður með svaramanninum, bróður sínum, uppi í kórnum ásamt sr. Irmu Sjöfn. Þetta var mikið tilfinningaflóð sem ég mun aldrei gleyma. Athöfnin var öll mjög falleg og við Halldór gætum ekki verið ánægðari.

Svo langaði okkur að halda veislu og gott partí með fólkinu okkar. Við erum bæði úr frekar stórum fjölskyldum svo tala gesta hækkaði mjög hratt. Það var ekki fyrr en við vorum búin að velja salinn að fjöldi gesta var ákveðinn, þar komust ekki fleiri en 130. Erfiðast var að geta ekki boðið öllum sem okkur langaði en hefðum hæglega getað boðið vel á þriðja hundrað manns.“

Sigríður segir að þau Halldór séu afar afslöppuð þegar jólaundirbúningur er annars vegar.

„Við erum ekkert að stressa okkur, setjum upp seríur, jólatré og eitthvað af jólaskrauti, en myndum seint vinna einhverja skreytingakeppni,“ segir hún.

Sigríður og Halldór eiga bæði uppkomin börn frá fyrri samböndum. Fyrstu tvenn jólin þeirra saman voru þau barnlaus en síðustu ár hafa tvær af dætrum þeirra varið jólunum með þeim.

„Það hitti þannig á að tvenn fyrstu jólin okkar vorum við barnlaus, enda eru börnin okkar öll orðin fullorðin og sjálfstæð. Það var mjög notalegt og afslappað. Næstu tvenn jól á eftir voru dætur okkar með okkur og við buðum líka til okkar ungri konu sem átti ekki í önnur hús að venda hér á landi yfir jólin. Við vorum sammála um að það ætti enginn að vera einn á aðfangadagskvöld ef hægt er að komast hjá því og hún er mjög góð vinkona okkar í dag.

Á aðfangadag hittum við systkinin hans Halldórs og fjölskyldur þeirra í möndlugraut í hádeginu. Þar er skipst á gjöfum, spjallað og hlegið þannig að við erum komin í jólaskapið eftir þessa skemmtilegu samveru. Þegar við komum heim undirbúum við svo jólamatinn og ég mæti svo í kirkjuna um klukkan 16 ásamt kirkjuvörðunum til að gera klárt fyrir aftansöng í Hallgrímskirkju. Halldór hefur þá klárað að undirbúa matinn og komið svo í kirkjuna um 17.30 ásamt þeim sem eru með okkur á jólunum.“

Svipaðar jólahefðir

Hjónin borða hamborgarhrygg á jólunum og segir Sigríður að Halldór sé vanur að búa til rauðkál en sjálf býr hún til ís. Á jóladag eru þau boðin í mat hjá foreldrum Sigríðar.

„Foreldrar mínir hafa boðið afkomendum sínum og fjölskyldum í mat á jóladag undanfarin ár og það hefur heldur betur fjölgað frá því þau gerðu það fyrst. Fjölskyldan er samheldin, lífleg og kraftmikil svo það er alltaf mikið fjör og mikið hlegið. Gjarnan eru dregin upp skemmtileg borðspil og spilað fram eftir kvöldi.“

Sigríður nýtur aðventunnar þótt það sé mikil dagskrá í Hallgrímskirkju.

„Hinn nýi Kór Hallgrímskirkju verður í aðalhlutverki og ég hlakka mikið til jólatónleikanna þeirra og nýjungarinnar sem kallast Syngjum jólin inn! Þá er opið og ókeypis í kirkjuna og þar syngja þrír kirkjukórar hástöfum auk þess sem kirkjugestir taka undir í heljarinnar fjöldasöng. Við erum líka með gestakóra í helgihaldinu svo sem Karlakór Reykjavíkur, Vox feminae, Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, Graduale liberi, Graduale futuri, Stúlknakór Reykjavíkur og Aurora. Að auki eru einsöngvarar og hljóðfæraleikarar svo það verður hátíðarbragur á öllu helgihaldinu í desember. Á gamlársdag verða svo hinir sívinsælu tónleikar Hátíðarhljómar við áramót þar sem leikið er á trompeta, orgel og pákur.“

Daim-ís Sigríðar 6 eggjarauður

200 g púðursykur

1 tsk. vanilludropar

0,5 l rjómi

200 g Daim-kurl

Þeytið púðursykur og eggjarauður saman. Þeytið rjómann og bætið honum út í ásamt vanilludropunum. Bætið Daim-kurlinu saman við. Hellið í form og frystið.

Sigríður Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju.
Sigríður Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju. mbl.is/Unnur Karen
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: