Hefur lifað tímana tvenna í útgerðinni

Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins tók á móti Ginnenton í síðustu …
Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins tók á móti Ginnenton í síðustu viku. Hann verður Suðurey VE 11 og er verið að gera hann kláran á loðnu. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Eyþór Harðarson útgerðarstjóri Ísfélagsins í Vestmannaeyjum tók á móti nýju skipi í síðustu viku þegar Suðurey VE bættist í flota Ísfélagsins. Eyþór er af sjómönnum kominn þó ekki hafi hann stefnt á sjóinn. Faðir hans, Hörður Jónsson skipstjóri, gerði út Andvara VE 100 ásamt Jóhanni Halldórssyni til ársins 1980 að hann hætti í útgerð réð sig á báta Hraðfrystistöðvarinnar sem Sigurður Einarsson átti og stýrði.

Eyþór byrjaði ungur að vinna hjá Hraðfrystistöðinni hjá Sigurði. Hélt seinna til náms í rafmagnstæknifræði í Þýskalandi. Réði sig til Ísfélagsins þar sem Sigurður Einarsson var við stjórnvölinn eftir mikla uppstokkun í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum þegar Hraðfrystistöðin og Ísfélagið sameinuðust undir merkjum Ísfélagsins og Fiskiðjan og fleiri fyrirtæki runnu inn í Vinnslustöðina. Rafmagnstæknifræðingurinn varð síðar útgerðarstjóri þar sem hann hefur lifað tímana tvenna. Fjölskyldan er í golfi þar sem mamman var foringinn. Á kafi í íþróttastarfi þar sem handboltinn er í efsta sæti.

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/Árni Sæberg

„Sjálfur byrjaði ég í gamla Ísfélaginu eftir grunnskóla 1980 og vann þar hefðbundin verkamannastörf,“ segir Eyþór en foreldrunum fannst ekki mikil framtíð í fiskvinnu. „Pabbi sannfærði Sigga Einars um að gera mig að lærlingi í rafvirkjun. Í ágúst 1981 byrjaði ég í FESinu eins og bræðsla Hraðfrystistöðvarinnar var kölluð. FES-ið er og hefur verið sérstakur vinnustaður. Mjög skemmtilegur og þessum árum voru 15 manns á vakt, alls 30 manns á átta tíma vöktum. Byrjaði ekki vel, engin loðnuveiði á vertíðinni en því meira að gera í frystihúsinu.“

Loðnuvertíð á þessum árum stóð frá febrúar og fram í apríl. „Að vinna á vöktum allan þennan tíma var mikið fjör og maður kynntist mannskap sem seint gleymist. Erum enn að rifja upp sögurnar þegar við hittumst, Viðar Togga, Ási Friðriks, Guðgeir Matt, Bogi Sig verksmiðjustjóri og Jónas á Múla meistarinn minn og margir fleiri. Allt flottir og skemmtilegir kallar.“

Og margt var brallað. „Við Ási erum frumkvöðlar. Settum upp sjálfsafgreiðsluverslunina Ásþór  í kaffistofunni. Fullir bjartsýni eftir fyrstu vikuna og sáum fram á golfferð til Skotlands að vori. Enduðum með skuld  upp 20 þúsund kall hvor. Lögðum of mikið traust á vinnufélagana sem héldu að við værum að græða á framtakinu og slepptu að skrifa aðra hverja kókflösku.  Í ljósi nýrra verslunarhátta er sjálfsafgreiðsla ekki nýtt fyrirbrigði,“ segir Eyþór og glottir.

Eyþór og Ási, ráku verslunina Ásþór í FESinu sem endaði …
Eyþór og Ási, ráku verslunina Ásþór í FESinu sem endaði með skelli. Ljósmynd/Aðsend

Til Þýskalands í nám

Árið 1987 er stefnan tekin á nám í rafmagnstæknifræði, fyrst  í Reykjavík og í framhaldsnám í Þýskalandi. En það varð að vinna fyrir hlutunum, kominn með fjölskyldu, konu og tvö börn. Var eitt ár í Geisla og á togaranum Vestmannaey VE í eitt og hálft ár þar sem hann var baadermaður. „Við fórum til Lübeck 1991 og ég vann hjá Baader á meðan ég lærði þýskuna. Það hjálpaði að hafa verið Baadermaður á Vestmannaey og Maggi Kristins hringdi nokkur símtöl til að liðka fyrir. Haustið 1992 byrjaði ég í skólanum og kláraði hann haustið 1995. Allt keyrt á fullu til að klára námið á sem stystum tíma,“ segir Eyþór sem átti von á að enda í Reykjavík en fékk vinnu hjá Ísfélaginu.

„Ég seldi Sigga Einars þá hugmynd að ég gæti gert eitthvað gagn við tæknivæðingu fiskimjölsverksmiðjunnar og frystihússins.  Honum fannst ástæða til að reyna það og við fluttum heim um haustið 1995.“

Stærstu verkefnin voru breytingar í átt að meiri sjálfvirkni og betri orkunýtingu auk innleiðingar á iðntölvukerfum. „Það var gaman að vera þátttakandi í því. Þegar sá fyrir endann á því varð bruninn í desember 2000 þegar frystihús Ísfélagsins brann. Þar voru næg verkefni fyrir tæknimann í uppbyggingunni sem þá fór í hönd,“ segir Eyþór sem bauðst staða útgerðarstjóra sumarið 2003. Sló til og hefur upplifað miklar breytingar á flotanum.

Ísfélag Vestmannaeyja er þekkt kennileiti í bænum.
Ísfélag Vestmannaeyja er þekkt kennileiti í bænum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Endurnýjun flotans stærsta verkefnið

„Útgerðarstjórastarfið var ekki það sem ég reiknaði með en þú kannt eitthvað og leitar aðstoðar í því sem þú kannt ekki. Það skemmtilega við útgerð er að ekkert ár er eins og þú ert að vinna með mörgum, oft stórkostlegu fólki og miklar breytingar á flotanum. Skipin sem Ísfélagið átti þegar ég byrjaði voru öll farin 2013. Sá síðasti var Sigurður gamli, það mikla afla- og happaskip. Búið að endurnýja allan flotann með nýju skipunum, Heimaey og Sigurði sem eru ævintýri hvort fyrir sig. Heimaey smíðuð í Síle og Sigurður í Istanbúl.“

Upphaflega ætlaði Ísfélagið að láta smíða tvö skip í Síle. Árið 2007, fyrsta nóvember á afmælisdegi Sigurðar Einarssonar var skrifað undir samning um fyrra skipið og það seinna nokkru síðar. „Fyrra skipið átti að afhendast 2010 en svo kemur efnahagshrunið 2008. Það tafði en smíðin var komin vel á veg 2010 þegar stærsti jarðskjálfti í Síle í 50 ár ríður yfir. Í hafinu rétt fyrir utan þar sem Heimaey var í smíðum. Flóðbylgjan sem fylgdi eyðilagði allt nema Heimaey sem slapp og kom heim 2012.“

Nýtt skip Ísfélags Vestmannaeyja var sjósett 2011.
Nýtt skip Ísfélags Vestmannaeyja var sjósett 2011. Ljósmynd/Ísfélagið

Breyttir tímar með nýjum skipum

Heimaey er nútíma uppsjávarskip sem reynst hefur reynst vel í alla staði. Nýr Sigurður kemur 2014 og er enn öflugri.

„Þetta eru ánægjulegu verkefnin en það gengur á ýmsu eins og t.d. bruninn í Guðmundi í Póllandi 2006. Já, þetta er fjölbreytt og erfitt að fá leið á vinnunni.  Fyrr en varir ertu komin í allt annað verkefni með nýju fólki,“ segir Eyþór og skipin hafa yngst,  stækkað og eru fullkomnari á allan hátt.

Tekið á móti nýju skipi. Bjarki Kristjánsson skipstjóri, Stefán Friðriksson, …
Tekið á móti nýju skipi. Bjarki Kristjánsson skipstjóri, Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins, Jonathan Claesen Chamoret fráfarandi skipstjóri og Eyþór Harðarson útgerðarstjóri. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Sigurður gamli, aflahæsta skip íslenska flotans var smíðaður 1960, Guðmundur var 1967 módelið, Harpan frá 1977. „Íslendingar voru með vonlausan flota um aldamótin í samanburði við Norðmenn. Núna erum við með stór og öflug uppsjávaraskip sem kæla aflann. Koma með þúsund tonna farma í toppgæðum eftir fjóra til fimm daga og hver einasta padda fer til manneldis. Nýju skipin okkar, Álsey og Suðurey standast allar kröfur og eru nauðsynleg viðbót með stærri loðnukvóta og breyttri hegðun makríls.“

Staðan væri önnur ef þessara skipa nyti ekki við. „Við þurftum að sækja makrílinn lang leiðina til Noregs í sumar og núna er heimasíldin 80 til 100 mílur vestur af Reykjanesi, veidd með trolli niður við botn. Ekki hægt að ná henni í nót. Þetta hefði orðið síldarleysisár og engan makríl að fá hefðum við ekki átt þessi stóru og glæsilegu skip.  

Vinnuaðstaða og aðstaða sjómanna nú og fyrir 15 til 20 árum er eins og svart og hvítt. Skipin vel búin á allan hátt og fara betur með menn. Um leið hækkar starfsaldur sjómanna og er meðalaldur yfirmanna um sextugt á sumum bátunum. Menn entust ekki svona lengi á sjónum hér áður.“

Heimaey VE 1 og Sigurður VE 15 að veiðum.
Heimaey VE 1 og Sigurður VE 15 að veiðum. mbl.is/Börkur Kjartansson

Golf, handbolti og pólitík

Lífið er ekki bara síld, loðna, makríll, kolmunni og bolfiskur hjá Eyþóri. Hann heldur við fjölskylduhefðinni í golfinu þar sem mamma hans, Sjöfn Guðjónsdóttir var ein örfárra kvenna sem spilaði golf þegar hún byrjaði 1970. Pabbi hans, Hörður Jónsson fylgdi í fótspor konunnar og það sama gerðu Eyþór og systur hans, Alda, Hrönn og Katrín. Sjálfur var hann í stjórn GV í fjögur ár.

„Golfvöllurinn er ein af perlum Eyjanna og segull á golfara uppi á landi sem þykir viðburður að koma til Eyja og spila golf. Flottasti golfvöllurinn og í honum liggja gríðarleg tækifæri með nýjum Herjólfi og Landeyjahöfn. Hér er komin fyrsta flokks gisting og fólk getur valið á milli háklassa matsölustaða.“

Eyþór hefur víðar látið til sín taka í íþróttamálum. Er í grunninn Þórari og stoltur af því að hafa aldrei æft með Tý. Íþróttafélögin, Þór og Týr sameinuðust undir merkjum ÍBV 1997. Þar var Eyþór í stjórn fyrstu fjögur árin en það er handboltinn sem á hug hans allan. Í byrjun var óvissa um framtíð handboltans í Eyjum en síðan hefur leiðin legið upp á við og hefur ekkert félag hreppt eins marga titla í öllum flokkum og ÍBV frá því ÍBV-íþróttafélag var stofnað.

Golf í Vestmannaeyjum er einstök upplifun
Golf í Vestmannaeyjum er einstök upplifun Skjáskot/Instagram

„Strax eftir að við komum heim frá Þýskalandi datt ég inn í handboltaráð með góðu fólki. Á þessum tíma voru menn að  gefast upp á rekstri meistaraflokks karla. Barátta var milli Þórs og Týs sem sameinuðust sem betur fer. Það  myndaðist strax góð stemning í ráðinu, við fengum góða leikmenn og þjálfara til okkar. Það skilaði sér í betri árangri. Svo byrjuðu börnin að spila og maður fylgir þeim þannig að maður hefur ekki sleppt hendinni af handboltanum. Það sem hefur breyst er hvað það er svo stór hópur sem vinnur í kringum handboltann í dag. Margar hendur vinna létt verk. Enginn einn með þetta á bakinu eins og var 1995,“ segir Eyþór sem slysaðist inn í bæjarpólitíkina fyrir síðustu kosningar.

„Er varamaður á lista sjálfstæðismanna,“ segir Eyþór og hlær innilega. „Datt inn í pólitík á mjög sérstökum tíma, flokkurinn klofinn og hef því ekki kynnst því almennilega hvernig er í raun og veru að vinna í pólitík í venjulegu árferði. Samfélagið er í sárum en það grær og vonandi vinnum við okkur út úr þessu sem fyrst. Það fennir í þau spor,“ sagði Eyþór að endingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: