Bilun fannst í aðalvélum Þórs

Þór er bilaður þessa stundina.
Þór er bilaður þessa stundina. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Við slipptöku varðskipsins Þórs nýlega hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar í Hafnarfirði uppgötvaðist vatnsleki í nokkrum strokkum beggja aðalvéla skipsins. Þessar upplýsingar fékk Morgunblaðið hjá Ásgeiri Erlendssyni, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.

Hann segir að í kjölfarið hafi verið ákveðið að yfirfara vélarnar og standsetja, en Þór er 10 ára gamalt skip. Viðeigandi varahlutir hafa verið pantaðir að utan.

Um hefðbundið viðhald sé að ræða og ekki þurfi að fá sérfræðinga að utan til að vinna verkið. Kostnaður við umrætt viðhald er áætlaður 15-20 milljónir króna. Landhelgisgæslan gerir ráð fyrir að skipið fari til eftirlitsstarfa 12. janúar næstkomandi samkvæmt siglingaáætlun.

Upphaflega var gert ráð fyrir því að Þór færi til eftirlitsstarfa fyrr í þessum mánuði en af því gat ekki orðið vegna bilunarinnar. Freyja, hið nýja varðskip Íslendinga, hefur því verið eitt á miðunum við landið undanfarnar vikur og þurft að leysa margvísleg verkefni. Meðal annars að draga Þór frá Hafnarfirði til Reykjavíkur um síðustu helgi, þar sem viðgerðin fer nú fram.

Varðskipið Freyja er samkvæmt áætlun útkallsskip stofnunarinnar yfir jól og áramót. Freyja er nú í Siglufirði en áhöfnin er tilbúin ef til útkalls kemur. sisi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: