Furðulegt háttalag jólageitar um nótt

Lífið hefur ekki farið ljúfum höndum um jólageit IKEA.
Lífið hefur ekki farið ljúfum höndum um jólageit IKEA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það mark­ar alltaf ákveðin tíma­mót þegar sænska jóla­geit­in er sett upp við IKEA og kem­ur hún þeim sem eiga leið hjá henni oft­ar en ekki í mikið jóla­skap. Lífið hef­ur þó ekki alltaf farið ljúf­um hönd­um um þessa gríðar­stóru strá­geit, ekki frek­ar en sænsku syst­ur henn­ar sem hafa marg­ar hverj­ar orðið eldi að bráð í gegn­um tíðina.

Kveikt í geit­inni í Svíþjóð þrátt fyr­ir mikla gæslu

Kveikt hef­ur verið í 38 jóla­geit­um í Svíþjóð síðan IKEA setti fyrstu geit­ina upp þar í landi árið 1966. Að brenna geit­ina eða skemma hana á ein­hvern hátt er þó ólög­legt sam­kvæmt sænsk­um lög­um og get­ur sá sem ger­ist brot­leg­ur við þau lög átt yfir höfði sér allt að 3 mánaða fang­els­is­dóm. 

Á föstu­dag­inn síðastliðinn brann jóla­geit­inn sem sett hafði verið upp í borg­inni Gävle í Svíþjóð í ár til grunna. Í kjöl­farið var karl­maður á fer­tugs­aldri hand­tek­inn, grunaður um að hafa kveikt í geit­inni. Málið er enn til rann­sókn­ar hjá lög­reglu en sá grunaði hef­ur neitað sök, að því er greint frá í frétt BBC.

Jóla­geit­in á Íslandi kveikti í sér sjálf eitt árið

Sænsk viður­lög virðast þó ekki hafa komið í veg fyr­ir að þessi ósiður, sem að brenna geit­ina er, bær­ist hingað til lands en sam­kvæmt upp­lýs­ing­um Guðnýj­ar Camillu Ara­dótt­ur, yf­ir­manns sam­fé­lags­ábyrgðar og sam­skipta­deild­ar IKEA á Íslandi, hef­ur minnst þris­var sinn­um verið kveikt í jóla­geit­inni við IKEA við Kaup­tún í Garðabæ. Það var árið 2010, 2012 og síðast árið 2016.

Þá hafa tvær geit­ur fallið í val­inn vegna óveðurs, ein árið 2011 og önn­ur árið 2013.

Árið 2015 virðist svo sem geit­in hafi fengið nóg en þá kveikti hún bara í sér sjálf. Rétt­ara sagt þá kviknaði í út frá jólaseríu sem hékk utan á geit­inni sem varð til þess að hún brann til kaldra kola.

Í dag er geit­in vel girt af með raf­magns­girðing­um og vernd henn­ar auk­in með sól­ar­hrings­gæslu, bæði með ör­ygg­is­vörðum og mynda­vél­um, að sögn Guðnýj­ar. Hún hafi því fengið að standa óáreitt síðan árið 2016, enn sem komið er.

mbl.is