Jólagjöf frá Eddu K. til Söruh í óskilum

Þessi jólagjöf liggur í óskilamunum norska póstsins.
Þessi jólagjöf liggur í óskilamunum norska póstsins. Ljósmynd/Posten

Alls liggja 105 jólagjafir í óskilum hjá norska póstinum vegna ófullnægjandi sendingarupplýsinga. Minnst ein þeirra gæti hafa verið send frá Íslandi.

Sé flett í gegnum leitarvél á vef norska póstsins, yfir þær jólagjafir sem liggja í óskilamunum þar, má sjá eina gjöf, sem pökkuð er í fallegan, grænan pappír, skreyttum einhverskonar jurt sem minnir á koparreyni og er hún merkt með einföldum merkimiða.

Gallinn er aftur á móti sá að gjöfin er aðeins stíluð á Söruh, frá Eddu K.

Þar sem þær upplýsingar hafa ekki dugað norska póstinum til að koma gjöfinni í réttar hendur má láta reyna á það að hafa uppi á sendandanum sem samkvæmt nafninu gæti vel verið frá Íslandi.

Ef einhver lesandi mbl.is þarna úti þekkir mögulega til Eddu K. og vill gera góðverk fyrir jólin, getur sá hinn sami sent ábendingu um réttmætan sendanda gjafarinnar inni á vef norska póstsins og þannig vonandi komið gjöfinni til Söruh í tæka tíð.

mbl.is