Sér eftir grímulausu myndinni

Leikkonan Denise Richards sér eftir því að hafa birt mynd …
Leikkonan Denise Richards sér eftir því að hafa birt mynd af sér grímulausri í flugvél.

Leikkonan Denise Richards er sögð sjá mikið eftir því að hafa tekið mynd af sér án grímu í flugvél og birta á Instagram. Vinur hennar segir hana í raun hafa verið með grímu á sér í fluginu og hún hafi bara tekið hana af til að fá sér vatnssopa. 

„Denise áttar sig á því að það var ekki rétt að birta þessa mynd,“ sagði heimildamaður People um málið. „Hún trúir á grímunotkun og hún raunverulega fylgir reglunum,“ sagði hann. 

Richards var harðlega gagnrýnd um liðna helgi fyrir að birta mynd af sér án grímu í flugvél. Þá faldi hún sig undir þykkri kápu í stað þess að nota grímu og sagði kápuna mun þykkari en grímuna. Grímuskylda er enn um borð í flugvélum um allan heim og vakti athæfi hennar því nokkra athygli.

Annar heimildamaður sagði Richards ekki eina af þeim sem væru á móti grímunotkun. „Hvernig hún gerði þetta allt saman var skrítið, að birta myndina. Hún er tilbúin til að viðurkenna að það var heimskulegt af henni að birta myndina,“ sagði heimildamaðurinn.

„Hún var bara að fljúga heim, sat í sætinu sínu og setti yfir sig kápuna. Þú mátt taka niður grímuna til að drekka vatn. Þannig að þegar hún tók niður grímuna í smá stund til að fá sér vatn tók hún þessa mynd og birti – „ég vona að enginn verði pirraður“ – og hélt að hún væri sniðug. En fólki fannst þetta bara alls ekki fyndið,“ sagði þriðji heimildamaðurinn.

mbl.is