Blas Trujillo, heilbrigðisráðherra heimastjórnar Kanaríeyja, hefur greint frá því að heimastjórnin hafi óskað eftir heimild frá hæstarétti Kanaríeyja til að koma á útgöngubanni eftir miðnætti á gamlárskvöld og 5. janúar. Canarian Weekly greinir frá.
Útgöngubannið myndi miðast við sóttvarnastig hverrar eyju fyrir sig og tilgangur þess að koma í veg fyrir að fólk ferðaðist mikið milli staða á nýársnótt.
Hefur heilbrigðisráðherrann lagt til að á La Palma og La Gomera, sem eru á sóttvarnastigi 2, yrði útgöngubann á milli tvö eftir miðnætti til sex um morguninn. Á Fuerteventura, Gran Canaria og Tenerife, sem eru á sóttvarnastigi 3, yrði útgöngubann frá klukkan eitt eftir miðnætti til sex um morguninn.
Undanþágur á útgöngubanninu verða þó gerðar fyrir þá sem þurfa að fara í og úr vinnu á þessum tímum og þá sem þurfa að sækja sér læknisþjónustu.
Metfjöldi smita hefur greinst á Kanaríeyjum undanfarna sólarhringa. Síðastliðinn sólarhring greindust 3.958 með kórónuveiruna. Á Tenerife greindust 2.314 og á 1.193 á Gran Canaria. Aldrei hafa fleiri greinst á eyjunum.
Rúmlega helmingur smitanna, 54%, er af Ómíkron-afbrigði veirunnar.